Lífið

Minnist þjáninganna með nöktum myndaþætti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér er Nona Faustine á Wall Street.
Hér er Nona Faustine á Wall Street. Mynd/Faustine
Djarfur myndaþáttur listamannsins Nona Faustine hefur vakið mikla athygli vestanhafs en á myndunum situr Faustine nakin fyrir á stöðum innan borgarmarka New York sem eru samofnir sögu svartra í Bandaríkjunum.

„Ég þrái að vera þátttakandi, draga fram og minnast fólksins sem alla jafna hefur verið litið framhjá í sögu New York,“ segir Faustine í samtali við Mic en baksvið margra mynda hennar sækir hún í þjáningar þrælahaldsins.

Myndin hér að ofan var tekin á Wall Street en strætið hefur svo öldum skiptir verið miðpunktur verslunar í borginni. Í dag fer þar fram verslun með skulda- og hlutabréf en á átjándu öld voru það mannslíf sem gengu kaupum og sölum. 

Á tröppum ráðhússins.Mynd/Faustine
Á þessari mynd er Faustine á tröppunum við Ráðhús New York-borgar en skammt undan stóð sögufrægur grafreitur svartra þar sem talið er að á annan tug þúsunda hafi verið grafnir.

Tilvist grafreitsins hafði fallið í gleymsku áður en iðnaðarmenn grófu sig niður á hann við framkvæmdir árið 1991.

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, og eiginkona hans, Chirlane McCray, afhjúpuðu hefðbundnari minnisvarða um grafreitinn í liðnum mánuði.

Á myndinni hér að neðan má sjá eina mynd Faustine, þar sem þrjár hauslausar pappamyndir af henni tákna þrjá nafnlausa þræla sem grafnir eru við hlið eigenda sinna í kirkjugarði í Brooklyn.

MYnd/Faustine
Hún er alltaf í hvítum skóm á myndum sínum en þá segir hún vera vísun til fjötra hins hvíta feðraveldis sem minnihlutahópar í Bandaríkjunum geti aldrei losað sig undan.

Nánari umfjöllun um verk Faustine má nálgast á vef Mic.

Mynd/faustine





Fleiri fréttir

Sjá meira


×