Lífið

Þegar Bubbi hljóp í skarðið fyrir Egil á ögurstundu í Vestmannaeyjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Bubbi ásamt Stuðmönnum á góðri stundu.
Bubbi ásamt Stuðmönnum á góðri stundu. Vísir/Stuðmenn
„Þarna sýndi og sannaði Bubbi Morthens að hann er engum líkum,“ segir Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon um dansleikinn í Vestmannaeyjum þegar enginn annar en Bubbi Morthens leysti Egil Ólafsson af sem söngvara Stuðmanna.

Sögur hafa áður verið sagðar af þessu balli og meðal annars bassaleikari Stuðmanna, Tómas Tómasson, sem rifjað þetta atvik upp í bókinni Sögur Tómasar frænda þar sem hann sagði atburðarásina hafa minnt á Kardemommubæinn þegar Kasper, Jesper og Jónatan rændu Soffíu frænku.

Ljósmynd af Bubba með Stuðmönnum var deilt á Facebook-síðu hljómsveitarinnar fyrr  í vikunni og lá beinast við að hringja í Jakob Frímann Magnússon til að fá söguna.

Egill á kafi í Þjóðleikhúsinu

Atvikið átti sér stað rétt fyrir miðbik níunda áratugar síðustu aldar þegar Egill Ólafsson, söngvari Stuðmanna, var á fullu í Þjóðleikhúsinu. Jakob Frímann segir að stundum hafi örlögin hagað því þannig að sýningar voru settar á daga sem Stuðmenn voru bókaðir og oftast hafi það gengið upp með því að leigja einkavélar strax eftir sýningar.

Í þessu tilfelli, um hávetur, var ljóst degi fyrir dansleik að ekki yrði flogið til Eyja og því yrði að taka Herjólf eldsnemma um morguninn.

„Þar með var ljóst að annað hvort yrðu Stuðmenn að aflýsa einu helsta höfuðvígi sínu – eða finna verðugan staðgengil,“ segir Jakob Frímann.

Taldi litlar líkur á að Bubbi kæmi Stuðmönnum að gagni

Hann segist hafa haft samband við nokkra söngvara sem treystu sér ekki í þetta verkefni með svo skömmum fyrirvara. Bubbi hafði hins vegar sagt Jakobi að ef hann lenti í algjörum vandræðum þá mætti hann hafa samband við hann aftur.

„Eftir að hafa leitað til fimm annarra helstu söngvara landsins sem enginn treysti sér svona fyrirvaralaust, lá beinast við að hringja í Bubba – seint um kvöldið,“ segir Jakob Frímann. Hann segir Ingu Sólveigu, þáverandi konu Bubba, hafa svarað og tjáð Jakobi að Bubbi væri genginn á vit gjálífis og litlar líkur á að hann kæmi Stuðmönnum að gagni.

Vænti þess að Bubbi myndi hressast í bílnum

Í bók sinni segir Tómas Tómasson Jakob Frímann hafa rænt Bubba líkt og ræningjarnir gerðu í Kardemommubænum en Jakob segir aðfararnir ekki hafa verið alveg svo slæmar.

„Sannleikurinn er sá að Bubbi hafði notið gjálífis þessa nótt með glannalegri hætti heldur en fyrr eða síðar á sínum ferli. Sannarlega áður en hann gerðist strangur bindindismaður. Þarna hafði hann farið út á galeiðuna og kom ekki heim fyrr en aftur fimm um morguninn. Ég var búinn að útiloka alla aðra möguleika og átti engan kost annan en hreinlega að koma og taka hús hjá honum þarna því við þurftum að fara með bátnum snemma um morguninn til Þorlákshafnar. Hann var mjög úr heimi hallur þegar ég mætti til hans. Í rauninni tók ég hann með mér í bílinn og vænti þess að hann myndi hressast,“ segir Jakob.

Sjóveiki í Herjólfi

Þegar í Herjólf var komið voru Jakob og Bubbi settir saman í káetu, Jakob fékk efri kojuna en Bubbi neðri. Illsku veður var þennan morgun og segir Jakob að um fimmtán mínútum eftir að sjóferðin hófst hafi Bubbi staðið á fætur.

„Og ég sé í morgunskímunni að hann er farinn úr að ofan og það spýtist af honum svitinn og það spýttist upp úr honum allt sem hét síðasta kvöldmáltíðin og fyrir þessa sjóferð, gall og hvað eina. Káetan fylltist af gufum.“

Jakob segist hafa neyðst til að hlaupa fram og sækja gaffal og hræra í vaskinum, sem Bubbi hafði notað, til að hleypa öllu niður og út. „Hann var gjörsamlega fárveikur á leiðinni af bæði sukk og sjóveiki. Var svoleiðis að fótum fram kominn.“

Hinn helsjúki fær mátt

Þegar komið var í land var svo af Bubba dregið að hann taldi útilokað að hann gæti stigið á svið um kvöldið. „Hann þarf í rauninni að leggjast fyrir  og hann skelfur allur og nötrar. Þarna fara saman sjóveiki og einn allsherjar niðurtúr. Hann er allur hvítur og glær og ákaflega illa haldinn,“ segir Jakob.

Þá mætir til leiks Guðmundur Rúnar Lúðvíksson, myndlistar- og tónlistarmaður, sem sagðist vera með allsherjar lausn sem var talin eiga að breyta stöðunni verulega og líðan Bubba.

„Hann segir: Það er ein leið til að hressa sig af svona löguðu. Þú tekur ósykrað kakóduft, þrjár matskeiðar, hrærir það saman við kalt vatn í glasi og skellir því í þig í einum stórum teyg og þá ertu orðinn góður,“ hefur Jakob Frímann eftir Guðmundi.

Jakob segir útkomuna hafa verið eins og Biblíusögunum. „Þarna fékk hinn helsjúki mátt að nýju. Bubbi varð alshress að því er virtist.“

Magnaðasta ball Stuðmanna

Dansleikurinn í stóru bíóhöllinni í Vestmannaeyjum síðar um kvöldið var eitt magnaðasta „gigg“ Stuðmanna fyrr og síðar, að sögn Jakobs. Stemningin var mögnuð og heimtuðu gestirnir ein sex aukalög. Brugðið var á það ráð til að rýma salinn að leiða ballgestina út með konga-dansi. „Þannig tókst að rýma húsið einhvern tímann undir morgun.“

Hann segir Bubba hafa sýnt og sannað þetta kvöld að hann er engum líkum. Eftir mikil veikindi var hann orðinn hinn hressasti og bjargaði ballinu. „Mörgum árum síðar hvíslaði hann því að mér að það hefði kannski ekki bara verið kakóduftið sem hefði gert gæfumuninn.“

Kunni þó nokkuð mörg Stuðmannalög

Og Bubbi kunni  þó nokkuð mörg Stuðmannalög fyrir ballið og náði að tileinka sér annað eins magn af lögum til viðbótar. „Eitthvað tókum við af hans lögum líka í þessu samhengi því Tómas Tómasson var upptökustjóri á hans stærstu plötum á þessum tíma. Þetta var ákaflega eftirminnilegt,“ segir Jakob.

Samstarf Bubba með Stuðmönnum kom því ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Bubbi átti meira að segja að vera í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu. Stuðmennirnir höfðu hitt hann í Kaupmannahöfn þar sem taka átti upp lokasenuna fyrir myndina. Átti Bubbi að eiga orðastað við Stuðmennina í myndinni en atriðið náði ekki í lokaútgáfu hennar þar sem það þótti trufla flæðið.

En vinskapurinn hafði verið myndaður og hefur haldist. „Langur og gagnkvæmur vinarhugur,“ segir Jakob.

Stuðmenn og Bubbi um það leyti er Bubbi hljóp í skarðið fyrir Egil á ögurstundu í Vestmannaeyjum og stóð sig að sjálfsög...

Posted by Stuðmenn on Monday, July 20, 2015





Fleiri fréttir

Sjá meira


×