Innlent

Hafa fengið niðurstöðu úr greiningu á lífsýnum sem fundust á fjárkúgunarbréfi

Birgir Olgeirsson skrifar
Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir.
Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir. Vísir
Rannsókn er lokið á lífsýnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann á fjárkúgunarbréfi sem var stílað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Greint er frá þessu á vef DV en þar er haft eftir Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að lífsýnin hafi verið send út til greiningar og hefur lögreglunni borist niðurstöður úr þeirri greiningu.

Friðrik segir við DV að hann geti ekki sagt hvað kom út úr þessari greiningu en rannsókn málsins stendur enn yfir. Það voru systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand sem stóðu fyrir fjárkúgunarbréfinu en þær voru handteknar af sérsveit ríkislögreglustjóra sunnan Vallahverfisins í Hafnarfirði í maí síðastliðnum.

Þær höfðu skipað forsætisráðherranum að afhenda þeim átta milljónir króna í reiðufé á þeim stað annars myndu þær leka upplýsingum í fjölmiðla sem kæmu honum illa.

Ásamt rannsókninni á fjárkúgunartilrauninni gagnvart forsætisráðherra þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einnig til rannsóknar kæru manns á hendur systrunum fyrir að hafa kúgað hann til að borga 700 þúsund krónur annars yrði hann kærður til lögreglunnar fyrir að nauðga Hlín. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×