Innlent

Guðmunda Elíasdóttir látin

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmunda fæddist á Bolungarvík 23. janúar 1920.
Guðmunda fæddist á Bolungarvík 23. janúar 1920. Vísir/GVA
Óperusöngkonan Guðmunda Elíasdóttir er látin, 95 ára að aldri. Guðmunda lést í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst.

Guðmunda fæddist á Bolungarvík 23. janúar 1920. Hún nam söng í Kaupmannahöfn og Frakklandi og bjó síðan og starfaði að list sinni víða, meðal annars í Bandaríkjunum og Kanada auk Íslands.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Guðmundu segir að hún hafi tekið þátt í fyrstu óperuuppfærslu Þjóðleikhússins á Rigoletto. „Hún söng inn á fjölda hljómplatna og tók þátt í ótal leiksýningum, kvikmyndum og listviðburðum.

Margir minnast hennar enn fyrir þátt hennar í uppfærslum eins og Fiðlarinn á þakinu í Þjóðleikhúsinu og á tímamótaverkinu Miðillinn í Iðnó.

Flestir muna þó trúlega hina óvenju opinskáu og hreinskilnu ævisögu hennar; Lífsjátningu sem Ingólfur Margeirsson skráði. Lífsjátning kom fyrst út árið 1981 og var endurútgefin 2011.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×