Innlent

Starfsmenn hræðast afstöðu Rio Tinto

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Starfsmenn í álverinu í Straumsvík hræðast afstöðu stjórnenda Rio Tinto Alcan sem vilja aukna heimild til verktöku. Deiluaðilar hittast á fundi hjá Ríkissáttasemjara á morgun. 

Nokkrar undanþágur hafa verið veittar á yfirvinnubanni um helgina. 

Framleiðsla í álverinu í Straumsvík hefur gengið vel þrátt fyrir yfirvinnubann starfsmanna sem hófst á laugardag. Nokkrar undanþágur hafa verið veittar til að tryggja öryggi starfsmanna og að ekki verði tjón á búnaði eða framleiðslu. 

Á morgun hittast deiluaðilar hjá Ríkissáttasemjara. Þar ætla starfsmenn að leggja fram tillögu sem þeir vonast til þess að liðki fyrir viðræðum.

Gylfi Ingvarsson ráðgjafi starfsmanna vill lítið gefa uppi en segir enn sem komið er himinn og haf á milli hugmynda stjórnenda og starfsmanna um bætt kjör.

„Það kemur í ljós á fundinum á morgun  hvort að útspil annað hvort frá þeim eða okkur dugar til þess að fara í viðræður til að ljúka þessum samningi. En það er himinn og haf á milli,“ segir Gylfi.

Ef ekki semst fyrir 1.september hefst verkfall starfsmanna. 

Stjórnendur fyrirtækisins hafa gert það að forgangskröfu að fá aukna heimild til verktöku. Þeir segja aðeins um fjörutíu störf að ræða en starfsmenn hafa haldið því fram að þau séu fleiri, á milli sjötíu og áttatíu störf.

Gylfi svarar aðspurður að starfsmenn ekki óttast það að takast á um kröfuna í kjarasamningum en þeir óttist hins vegar afstöðu móðurfyrirtækisins. 

„Þeir hræðast ekki af völdum kjarasamnings. Við erum að semja um kaup og kjör, ekki um að loka fyrirtækinu. Aftur á móti hræðast menn afstöðu Rio Tinto. En þá verða Rio Tinto að taka ákvörðun á þeirra forsendum, ekki á forsendum kjarasamnings.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×