Innlent

Segir ágreining geta skapað úlfúð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Vísir/Anton Brink
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að ósamkomulag innan ríkisstjórna sé aldrei af hinu góða og það gæti skapað úlfúð sem hafi áhrif á önnur mál. Stjórnarflokkarnir virðast ekki stíga í sama takt þegar kemur að viðskiptabanni Rússa á Ísland sem var sett á fyrir helgi.

„Um leið og menn byrja að senda aðra tóna sín á milli brestur ákveðið þegjandi samkomulag sem oftast er í farsælli ríkisstjórn um að leysa ágreiningsefni í kyrrþey sín á milli. Það grefur undan trúverðugleika stjórnarinnar og getur skapað úlfúð á milli flokka,“ segir Gunnar Helgi.

Óhætt er að segja að viðbrögð forkálfa ríkisstjórnarinnar, Gunnars Braga Sveinsonar utanríkisráðherra, annarsvegar og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra vegna viðskiptabanns Rússa á Ísland hafa verið mismunandi. Gunnar Bragi virðist standa heilshugar á bakvið aðgerðir Íslands á meðan Bjarni Benediktsson segir það vera mikið álitamál hvað Ísland sé að gera með stuðningi sínum við viðskiptaþvinganir ESB og annarra vestrænna ríkja.

Flokkarnir þurfa að fara að sýna sérstöðu sína

Gunnar Helgi telur að einn og sér sé ágreiningur ríkisstjórnarflokkana um viðskiptabannið ekki skaðlegur en láti menn hann dreifast yfir í önnur mál sé það annað mál.

„Það hefur verið frekar friðsamlegt í kringum þessa stjórn og eitt og sér er þetta ekki mjög skaðlegt en ef menn láta þetta dreifast yfir á önnur mál, eins og t.d. stjórn fiskveiða þá getur það skapað úlfúð.“

Á síðasta þingi hætti Sigurður Ingi Jóhannson, sjávarútvegsráðherra, við að leggja fram frumvarp um fiskveiðistjórnun sem hafði verið í vinnslu. Ríkisstjórnarflokkarnir gátu að sögn Sigurðar ekki komið sér saman um hvaða aðili ætti að fara með forræði yfir veiðiréttinum. Flokkarnir ákváðu að leggja frumvarpið í bleyti.

Spurður um mögulegar ástæður fyrir ágreiningi ríkisstjórnaflokkanna í þessu máli segir Gunnar að það styttist í kosningar og að flokkarnir þurfi að fara að sýna sérstöðu sína.

„Nú förum við inn í seinni part kjörtímabils og þá verður hvatinn meiri hjá flokkum til þess að gefa merki til kjósenda um að þeir standi við sín mál og að þeir hafi skilað einhverju í ríkisstjórninni.“


Tengdar fréttir

Nei, Pútín

Með þessum aðgerðum, sem beinast að fjórum smáríkjum, er stórveldið að þreifa fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×