Innlent

SFS: Slæm tíðindi fyrir þjóðina alla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Vísir/Stefán Karlsson
„Þetta eru slæm tíðindi fyrir þjóðina alla,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Rússar hafa sett viðskiptabann á matvæli frá Íslandi en fyrir stundu var tilkynnt um að viðskiptabann á matvælum sem áður náði til Evrópusambandsins, Ástralíu, Kanada, Noregs og Bandaríkjanna muni einnig ná til Íslands au fjögurra aðra ríkja. Miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi fyrir íslensk fyrirtæki.

Kolbeinn hefur áhyggjur af stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í kjölfar ákvörðunar Rússa. Rússar séu til að mynda stærstu einstöku kaupendur makríls frá Íslandi. Ekki er ljóst hvert íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti leitað með vörur sínar enda eru helstu markaðir lokaðir.

„Rússlandsmarkaður er mjög stór markaður og útflutningsverðmæti þangað er gríðarleg. Ég hef áhyggjur af stöðu fyrirtækjanna innan okkar raða og þeirra fjölmörgu starfsmanna sem starfa í landvinnslum okkar. Helstu markaðirnir hafa lokast. Rússlandsmarkaður er lokaður, Nígeríumarkaður er lokaður og Úkraínumarkaður er lokaður.“

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi muni nú ræða við íslensk stjórnvöld um næstu skref. Reynt verði að minnka skaðann eins og hægt er.

„Við verðum bara að skoða möguleika og hvað er hægt að selja hvar þannig að sem minnstur skaði hljótist af. Það hljóta allir að leggjast á sömu árarnar í þessum málum og við munum ræða við stjórnvöld um næstu skref.“


Tengdar fréttir

Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga

Rússland hefur ákveðið að setja viðskiptabann á matvæli frá fimm ríkjum til viðbótar við það bann sem þegar hafði verið sett á ríki Evrópusambandsins. Löndin eru Albanía, Svartfjallaland Liechtenstein og Úkraína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×