Erlent

Saksóknari í Svíþjóð hættir að rannsaka hluta brota Assange

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London síðan 2012.
Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London síðan 2012. vísir/epa
Saksóknari í Svíþjóð hefur hætt rannsókn sinni á meintri kynferðislegri áreitni Julian Assange stofnanda WikiLeaks. Ástæðan fyrir því er að brot hans eru nú fyrnd. Ásakanir á hendur Assange um nauðgun eru hins vegar enn til rannsóknar. Þetta kemur fram á vef BBC.

Ekki tókst að kafa ofan í mál Assange til hlítar sökum þess að ekki var hægt að yfirheyra hann. Hann hefur ávallt neitað sök en neitað að mæta í yfirheyrslur þar sem hann er viss um að sænsk yfirvöld muni framselja hann til Bandaríkjanna. Það bíða hans dómsmál vegna umfangsmikilla leka WikiLeaks. Frá árinu 2012 hefur Assange því dvalið í sendiráði Ekvador í London og ekki farið úr húsi.

Samkvæmt sænskum lögum er ekki hægt að reka sakamál gegn einstaklingum nema þeir hafi verið yfirheyrðir. All voru fjögur mál höfðuð gegn Assange og falla þrjú þeirra niður þann 18. ágúst. Nauðgunarmálin fyrnast hins vegar ekki fyrr en árið 2020.

Assange hefur áður sagt að hann muni ekki yfirgefa sendiráðið jafn vel þó að málin gegn honum verði látin niður falla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×