Innlent

Stígamót: „Amnesty International hefur sett ofan“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta 365/Þorbjörn Þórðarson
Fulltrúar kvennasamtakanna sjö sem mótmælt hafa tillögu Amnesty International um afglæpavæðingu vændis eru mjög vonsviknar með að tillagan hafi verið samþykkt á ársþingi Amnesty fyrr í dag. Vísir náði tali af Guðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastýru Stígamóta.

„Þær eru staddar hjá okkur hérna samstarfskonur okkar úr kvennahreyfingunni og við erum allar gífurlega vonsviknar og okkur finnst að Amnesty International hafi sett ofan. Þetta kemur úr einkennilegri átt frá samtökum sem við höfum virkt og styrkt til þessa.“

Samtökin sjö sem um ræðir eru Stígamót, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöf, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélagið og Femínistafélag Íslands.

Þessi samtök sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu fyrir helgi þar sem þau skora á Íslandsdeild Amnesty International að beita sér af alefli fyrir því að tillaga alþjóðahreyfingar Amnesty um að gefa vændi frjálst verði felld.

Guðrún segir að nú sé verið að ræða hver næstu skref kvennasamtakanna sjö verði en ljóst sé að Amnesty International þurfi að líta í eigin barm.

„Ég held að Amnesty þurfi sjált að meta það hvaða áhrif þetta muni hafa á þeirra starf. Það tók okkur 10 ár að koma á þeim lögum sem eru í gildi á Íslandi. Við munum vera trúar sannfæringu okkar og gera það sem við getum til að farið verði með vændi eins og okkur finnst rétt að gert sé.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×