Innlent

Maðurinn var vopnaður golfkylfu og hnífi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá lögregluaðgerðum við Kirkjuvelli.
Frá lögregluaðgerðum við Kirkjuvelli. Vísir
Maðurinn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í Vallahverfinu í Hafnarfirði í nótt var vopnaður golfkylfu og hnífi þegar sérsveitarmenn fóru inn í íbúð hans. Lögreglan hafði haft afskipti af manninum í gærkvöldi eftir að kvartað hafði verið undan hávaða á heimili hans. Maðurinn brást illa við afskiptum lögreglu og veittist að henni.

Þegar reynt var að handtaka hann náði hann að komast undan lögreglu og læsa sig inni í íbúðinni. Þar tilkynnti hann lögreglu að hann væri vopnaður skotvopni en samkvæmt tilkynningum sem bárust var talið að skothvellir hefðu heyrst á svæðinu.

Var ekki vopnaður skotvopnum

„Hann var ekki vopnaður skotvopnum eins og talið var í upphafi,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, um aðgerðina. Hann segir manninn ekki hafa komið sjálfviljugan út heldur fór lögreglan inn í íbúð hans á Kirkjuvöllum þar sem hann var handtekinn.

„Hann veitti enga mótspyrnu, hann fékk ekki tækifæri til þess. En hann hafði í hendinni golfkylfu og hníf þegar hann var handtekinn.“

Maðurinn hafði ítrekað komist í kast við lögin en síðast hlaut hann tíu mánaða dóm fyrir brot gegn valdstjórninni í mars og hefur hlotið dóma af svipuðum toga í Austurríki.

Sjá einnig: Langur brotaferill mannsins: Fíkniefnalagabrot, hótanir og skothríð á Reykhólum

Eiga eftir að yfirheyra hann


Hann er nú í haldi lögreglu en Margeir gat ekki svarað því að svo stöddu hvort lögreglan mun fara fram á gæsluvarðhald yfir honum. „Það er í skoðun, við eigum eftir að ræða við hann og við erum að meta þetta,“ segir Margeir og segir lögregluaðgerðina hafa gengið vel miðað hvernig málið leit út í fyrstu.

Hann segir að um 30 manns hafi tekið þátt í þessari aðgerð en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögregla lokaði allri umferð inn í Vallarhverfið og voru íbúar hvattir til að halda sig innandyra á meðan aðgerðum stóð. Tilkynnt var um málið um klukkan tíu í gærkvöldi og var maðurinn handtekinn um þremur tímum síðar eða um klukkan eitt í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×