Innlent

Yfirheyrslur á döfinni í fjárkúgunarmálinu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Systur Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hafa viðurkennt aðild sína að málinu.
Systur Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hafa viðurkennt aðild sína að málinu. Vísir
Frekari yfirheyrslur eru áætlaðar í vikunni vegna fjárkúgunarmálsins þar sem systur hafa viðurkennt að hafa reynt að kúga átta milljónir króna úr hendi forsætisráðherra.

Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé á lokametrunum. Hann segir að til að klára rannsóknina þurfi þó að kalla ótilgreindan fjölda aðila aftur til yfirheyrslu.

Meðal þess sem yfirheyra þarf þessa aðila um eru niðurstöður lífsýnarannsóknar sem bárust af rannsóknarstofu í útlöndum í byrjun mánaðarins.

Meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir vegna málsins eru systurnar tvær, Malín Brand og Hlín Einarsdóttir. Friðrik Smári vildi ekki staðfesta hvort þær yrðu yfirheyrðar aftur.

Þrjár kærur til rannsóknar

Þær hafa viðurkennt að hafa sent forsætisráðherra bréf á heimili hans þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim átta milljónir króna ella yrðu upplýsingar um meinta aðkomu hans að lánafyrirgreiðslu MP banka til fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar gerðar opinberar, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Ásamt rannsókninni á fjárkúgunartilrauninni gagnvart forsætisráðherra þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einnig til rannsóknar kæru manns á hendur systrunum fyrir að hafa kúgað hann til að borga 700 þúsund krónur annars yrði hann kærður til lögreglunnar fyrir að nauðga Hlín. Eftir að maðurinn lagði fram kæru sína vegna fjárkúgunar kærði Hlín manninn til lögreglu fyrir nauðgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×