Innlent

Heiða Kristín tekur sæti Bjartar á þingi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Heiða Kristín er á leið inn á þing.
Heiða Kristín er á leið inn á þing.
Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar Framtíðar, mun taka sæti Bjartar Ólafsdóttur á þingi er Björt fer í fæðingarorlof. Áður hafði hún lýst því yfir að það gæti hún ekki gert meðan Guðmundur Steingrímsson væri formaður flokksins. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Guðmundur Steingrímsson muni hætta sem formaður Bjartrar framtíðar er ársfundur flokksins verður haldinn þann 5. september næstkomandi. Róbert Marshall mun á sama tíma hætta sem þingflokksformaður.

Í samtali við Þorbjörn Þórðarson í hádegisfréttum Bylgjunnar segir Heiða að hún sé ekki búin að ákveða sig hvort hún ætli í formannsslag eður ei en Heiða var annars stofnenda Bjartrar framtíðar.

Sjá einnig: Leiðtogar láta af störfum hjá Bjartri framtíð

„Ég er ekki búin að ákveða það endanlega en ég hef lýst því yfir að það séu margar konur hæfar til að taka við formennsku í flokknum,“ segir Heiða. „Ég myndi fagna því ef margir biðu sig fram en ég hef ekki útilokað það að gera það sjálf.“

Aðspurð um hugmynd Guðmundar Steingrímssonar að embætti flokksins myndu færast á milli manna svarar Heiða að hún telji það ekki ráðlegt sem stendur. Nú skipti meira máli að kjósa sterka forystu á ársfundinum.

„Ég tel að gott formannskjör og ný forysta gæti skilað okkur í því að við myndum geta orðað betur hvar við stöndum, hvert og eitt, og hvert við viljum stefna. Þá er mögulegt að skýra hlutina betur út fyrir öðrum sem er það sem þetta snýst allt um.“

Sjá einnig: Hvers vegna ekki formannskjör?

Björt Ólafsdóttir útilokar að hún muni bjóða sig fram. Í samtali við Þorbjörn segir hún að hún gangi með tvíbura og á leið í fæðingarorlof svo það sé ekki á döfinni. Hugmynd Guðmundar um að embættin færist á milli finnst henni hins vegar góð.

„Þetta er hugmynd sem hafði komið fram áður í samtölum innan flokksins,“ segir Björt. „Fyrir okkur í Bjartri framtíð er stefnan skýr en það má alltaf gera betur í að kynna hana og koma henni á framfæri.“

Brynhildur Pétursdóttir hefur einnig verið nefnd til sögunnar sem mögulegur formaður. Ekki náðist í Brynhildi við vinnslu fréttarinnar þar sem hún var upptekin við að hlaupa Reykjavíkurmaraþon.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×