„Ég hef þekkt Sigga í mörg ár, í gegnum þjálfaramenntun, setið mörg námskeið með honum. Ég man að við ræddum um þetta haustið 2011. Ég man eftir því að við töluðum saman um þetta [að taka við liðinu]. En síðan heyrði ég ekki í neinum þar til að Geir [Þorsteinsson, formaður KSÍ] hringdi í mig eitthvað síðar,“ útskýrir Lars.
Margir hafa stigið fram að undanförnu og sagst hafa átt hugmyndina að því að Lars tæki við landsliðinu. Blaðamaðurinn Henry Birgir Gunnarsson endurbirti á Facebook-síðu sinni viðtal sem hann tók við Lars fyrir Fréttablaðið, frá 8. september 2011. Þá sagði Lars meðal annars: „Ég fæ reglulega fyrirspurnir um hvort ég hafi áhuga á hinum og þessum störfum. Ég hef alltaf sagt að ef eitthvað áhugavert komi upp þá sé ég tilbúinn að skoða málið. Starf landsliðsþjálfara Íslands er áhugavert og ef KSÍ hefur áhuga og vill ræða við mig þá er ég til í viðræður.“

Þó mátti greina augljóst grín í skrifum þeirra Tuma og Henrys á Facebook, um málið.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson steig svo fram, á sunnudagskvöldið þegar Ísland tryggði sér sæti í lokakeppni EM og sagðist hafa átt hugmyndina að ráðningu Lars. Þá var Knattspyrnusamband Íslands í viðræðum við Roy Keane og þurfti Sigurður Ragnar að sannfæra stjórnina að Lars væri rétti maðurinn í starfði. „Ég þurfti því að fylgja þessu máli hratt eftir þar sem KSÍ var komið í viðræður við Roy Keane og sannfæra stjórnendur KSÍ um að Lars væri betri kostur. Að lokum tóku Geir og Þórir auðvitað lokaákvörðunina og hún var að sjálfsögðu hárrétt og farsæl og þeim ber að hrósa fyrir það. Engan veginn ætla ég að eigna mér þessar ákvarðanir, þær voru auðvitað Geirs og Þóris og stjórnenda KSÍ,“ skrifaði Sigurður Ragnar á Facebook-síðu sína.
Geir Þorsteinsson var gestur í Akraborginni á X-inu í gær. Þar segist hann sjálfur hafa átt hugmyndina að því að fá Lars til landsliðsins. „Það kom mér á óvart að hann skildi hætta með Svíana og þá kom þessi hugmynd upp í kollinn að þarna gæti kannski verið möguleiki ef það væri innan þess fjárhagsramma sem við gætum teygt okkur í,“ sagði hann og bætti við: „Ég meina ég þekkti manninn og vissi eftir hverju var að sækja.“ Fyrir þá sem vilja glöggva sig frekar á málinu, er gott að benda á úttekt Nútímans á málinu.
Einnig má benda á tíst Þorsteins Gunnarssonar, fyrrum formanns knattspyrnudeildar Grindavíkur. Á Twitter birti hann tölvupóst sem hann sendi á Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, haustið 2011:
Allir vildi Lilju kveðið hafa. það var ekkert að þakka :) #fotboltinetpic.twitter.com/EHGKbVZFGs
— Thorsteinn Gunnars (@thorsteinngu) September 8, 2015

Lars, sem staðfestir að hann hafi átt í viðræðum við nokkur önnur knattspyrnusambönd, segist ekki telja blaðaviðtölin við hann með í þessu ferli og hefur einfalda ástæðu fyrir því:
„Nei, ég tel fjölmiðlana ekki með, því held að þeir geti ekki boðið manni þjálfarastarf,“ segir hann og brosir.