Skoðun

Við getum múltitaskað

Þórir Guðmundsson skrifar

Hin mikla bylgja velvildar í garð sýrlenskra flóttamanna dregur fram allt það besta í þjóðarsálinni. Á nokkrum sólarhringum hafa fleiri en þúsund manns skráð sig til sjálfboðastarfa hjá Rauða krossinum.

En spurningar vakna og sú sem heyrist oftast er: „Eigum við ekki fyrst að hjálpa þeim sem standa okkur nær?“

Þessi spurning er ekki ný. Reynsla okkar hjá Rauða krossinum er samt sú að þeir sem eru reiðubúnir að hjálpa bágstöddum í útlöndum eru yfirleitt þeir sömu og hjálpa bágstöddum á Íslandi.

Kemur ekki niður á annarri aðstoð

Hjá Rauða krossinum í Reykjavík snýst starfið að langmestu leyti um stuðning við berskjaldað fólk í okkar samfélagi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar veita heimilislausum konum næturathvarf og útigangs­mönnum aðhlynningu. Aðrir vinna með fólki með geðraskanir, heimsækja aldraða og sjúka, vinna með fötluðum og veita fjölskyldum í vanda sálrænan stuðning og meðferð. Við aðstoðum líka flóttafólk.

Þessi hjálp er veitt án þess að það komi niður á annarri aðstoð. Starf að málefnum þolenda náttúruhamfara og styrjaldarátaka erlendis gerir okkur þvert á móti hæfari til að sinna verkefnum hér heima. Sálfræðingar og aðrir sérfræðingar Rauða krossins hafa starfað víðs vegar um heim og eru virkir í hjálparstarfi hér heima.

Rík þjóð

Það fólk sem nú skráir sig til sjálfboðastarfa finnur sig knúið til að hjálpa. Það sér mynd af konu úti á Miðjarðarhafi, sem reynir að halda höfði barns fyrir ofan hafflötinn, með dýpið og dauðann fyrir neðan. Það sér mynd af líki barns sem skolar upp á strönd.

Við höldum áfram að sinna þeim sem þurfa aðstoð hér heima. Við getum líka tekið við fólki að flýja hræðilega borgarastyrjöld. Við erum rík þjóð. Og við getum múltitaskað.




Skoðun

Sjá meira


×