Innlent

Skýr niðurstaða meistararitgerðar: Refsistefna stjórnvalda í fíkniefnamálum virkar ekki

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Stjórnvöld hafa tekið harkalega á hverskyns fíkniefnabrotum. Dómar eru þungir og refsað er fyrir minnstu brot.
Stjórnvöld hafa tekið harkalega á hverskyns fíkniefnabrotum. Dómar eru þungir og refsað er fyrir minnstu brot. Vísir/Anton/Gyða
Ragnheiður Gyða Stefánsdóttir, meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands, komst að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu í meistararitgerð sem hún skilaði í vikunni að fíkniefnastefna stjórnvalda hefði þveröfug áhrif þegar kemur að því að fækka fíkniefnabrotum. Hún hvetur stjórnvöld til þess að innleiða stefnu um skaðaminnkun, taka upp mannúðlegri úrræði og draga úr forræðishyggju.

„Fíkniefnavandinn er fyrst og fremst heilbrigðisvandi og því er mikilvægt að taka á honum á þeim vettvangi,“ útskýrir Gyða, en það er hún jafnan kölluð, í ritgerðinni. „Rétturinn til lífs og rétturinn til aðstoðar vegna sjúkleika eru grundvallarmannréttindi sem allir eiga að njóta með mannlegri reisn, líka fíkniefnaneytendur.“

Refsistefnan hreinlega ekki að virka

„Það hefur sýnt sig að refsistefnan eins og hún er núna er ekki að virka, glæpum sem tengjast fíkniefnum og fíkniefnabrotum er ekki að fækka,“ segir hún í samtali við Vísi. „Og neytendum er alls ekki að fækka. Mér finnst kominn tími á það að horfast í augu við þá staðreynd að það verða alltaf fíkniefnaneytendur í samfélaginu og þeir eiga mannréttindi eins og allir aðrir. Þeir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu og þess vegna þarf að hjálpa þessu fólki. Fíklar eru ekkert glæpamenn heldur bara veikt fólk.“

Sprautufíklum þarf að hjálpa en ekki refsa að sögn Gyðu.Vísir/Anton
Gyða rannsakaði refsistefnu stjórnvalda vegna mikils áhuga á refsirétti en hún naut handleiðslu Ragnheiðar Bragadóttur prófessors við skrifin.

„Ég var ekkert búin að gera mér upp neina skoðun, ég var aðeins búin að læra um þetta í refsirétti í skólanum og gerði mér grein fyrir því að það þyrftu einhverjar breytingar að eiga sér stað. En ég vissi ekki hvernig ætti að breyta eða hvað ætti að gera. Það eru margar leiðir sem hægt er að fara, það er kannski vandinn. Mismunandi lönd hafa farið mismunandi leiðir. Sum hafa til dæmis gert neysluskammta refsilausa eða hreinlega lögleitt fíkniefni.“

Sjá einnig: Afglæpavæðing fíkniefna gæti orðið íslenskur veruleiki

Gera ætti vörslu neysluskammta refsilausa

Gyða er ekki hlynnt lögleiðingu fíkniefna alfarið en hún telur að stjórnvöld ættu að gera vörslu neysluskammta refsilausa. „Það hefur verið farin sú leið að þeir séu refsilausir að minnsta kosti við fyrsta brot. Svo eru kannski einhverjar sektir þegar kemur að ítrekuðum brotum en það leiðir allavega ekki til handtöku og ákæru. Í því felst svo mikill kostnaður fyrir ríkið og samfélagið allt.“

Þá sé verið að stilla fíklum upp við vegg þegar þeim er gert að greiða tugþúsundir króna fyrir vörslu á fíkniefnum en lágmarkssektir eru fimmtíu þúsund. „Það má velta því fyrir sér hvað fíkill í neyð ætlar að gera til að borga svona sekt. Hann þarf í fyrsta lagi að fá sér nýjan skammt og svo borga sektina. Þetta ýtir undir glæpi og svo getur það á endanum leitt fólk út í vændi.“

Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi úrræði sem gerir fíklum kleift að neyta fíkniefna í sótthreinsuðu umhverfi og þar geta þeir losað sig við sprautunálar.Vísir/Ernir
Markmið refsinga er að vera öðrum víti til varnaðar auk þess sem í refsingu á að felast ákveðin betrun. Gyða segir núverandi löggjöf og stefna stjórnvalda í þessum efnum ekki ná markmiði sínu þegar kemur að fíkniefnabrotum þar sem þeim er ekki að fækka þó síður sé.

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk hætti að brjóta af sér ef það er enn með fíknivanda.“

Opinber stefna yfirvalda ekki skaðaminnkun

Meðferðarrúrræði í fangelsunum eru góð að mati Gyðu en of langir biðlistar eru sem grundvallast að mestu leyti á fjárskorti. Fangarnir, fangaverðir og fjölskyldur fanga hafa verið ánægð með meðferðarþjónustuna að sögn Gyðu. „Þessi meðferðarúrræði eru að ganga mjög vel og það mætti efla þau.

Sjá einnig: Eltingaleikur lögreglu við neyslu ungmenna sagður fyndinn ef hann væri ekki svona sorglegur

„Niðurstaðan í ritgerðinni var í rauninni sú að opinber stefna yfirvalda þarf að vera skaðaminnkun. Opinber stefna yfirvalda  nú er ekki skaðaminnkun. Þeir einu sem bjóða upp á skaðaminnkandi úrræði eins og er eru frjáls félagasamtök eins og Rauði krossinn. Rauði krossinn hefur verið að vinna mjög gott starf með Frú Ragnheiði, en það er náttúrulega rosalega erfitt fyrir samtök eins og Rauða krossinn sem hafa takmarkað fjármagn að standa undir allri þessari þjónustu. Yfirvöld ættu að taka meiri þátt í því.“

Skilaði meistararitgerðinni minni í dag, mjög góð en skrítin tilfinning að klára ritgerðina og kveðja laganá

Posted by Gyða Stefánsdóttir on Friday, September 4, 2015


Örlar á breyttu hugarfari

Í Danmörku og Noregi hefur verið dregið úr smitsjúkdómum og ofneyslu fíkniefna með svokölluðum sprautuklefum sem eru eins konar heilsugæslur sem bjóða fíklum upp á verndað umhverfi þar sem hægt er að sprauta sig og losa sig við sprautunálar.

„Þetta er auðvitað kostnaðarsamt úrræði þannig lagað en aftur á móti dregur þetta úr öðrum kostnaði sem hlýst af útbreiðslu smitsjúkdóma til dæmis.“ Hún segir jafnframt að það sé mikilvægt að takast á við þann sívaxandi vanda sem sprautunálar á víðavangi valda.

Góðu fréttirnar eru að það örlar fyrir breyttu hugarfari hjá stjórnvöldum en Ragnheiður segist finna fyrir því. Kristján Þór Júlíusson hefur lýst því yfir að hann sé hallur undir afglæpavæðingu fíkniefna eins og kunnugt er og hann skipaði nefnd á síðasta ári sem skal móta stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum fíkniefnaneyslu.

„Það er ekkert að fara að breytast ef fíklar þurfa að flýja lögregluna og lifa í undirheimum án þess að fá aðstoð,“ segir Gyða. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×