Íslensku strákarnir eru nú með 18 stig á toppi A-riðils og þeim nægir eitt stig úr síðustu þremur leikjunum til að tryggja sér sæti á EM í Frakklandi. Ísland tekur á móti Kasakstan í þriðja síðasta leik sínum í riðlinum á sunnudaginn og getur þá tryggt sér sæti í lokakeppninni í fyrsta sinn í sögunni.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina markið gegn Hollandi í gær úr vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks.
Sjá einnig: Aldrei áður verið stressaður að taka víti
Þetta var fimmta mark Gylfa í undankeppninni en hann er markahæstur allra leikmanna í A-riðli. Tékkinn Borek Dockal og Hollendingurinn Klaas-Jan Huntelaar koma næstir með fjögur mörk hvor. Eitt marka Dockals kom gegn Íslandi en Huntelaar tókst líkt og samherjum sínum ekki að koma boltanum framhjá Hannesi Þór Halldórssyni í leikjunum tveimur gegn Íslandi.

Pólverjinn Robert Lewandowski, leikmaður Bayern München, er markahæstur í undankeppni EM 2016 með sjö mörk. Næstir koma Bosníumaðurinn Edin Dzeko, Englendingurinn Danny Welbeck og Walesverjinn Gareth Bale en þeir hafa gert sex mörk hver.
Sjö leikmenn hafa skorað fimm mörk, líkt og Gylfi okkar Sigurðsson. Þeirra á meðal eru þekktar stærðir eins og Thomas Müller, Zlatan Ibrahimovic, Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney.
Markahæstu leikmenn í undankeppni EM 2016:
7 mörk
Robert Lewandowski (Pólland)
6 mörk
Edin Dzeko (Bosnía), Danny Welbeck (England), Gareth Bale (Wales)
5 mörk
Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland), Omer Damari (Ísrael), Cristiano Ronaldo (Portúgal), Thomas Müller (Þýskaland), Zlatan Ibrahimovic (Svíþjóð), Kyle Lafferty (Norður-Írland), Wayne Rooney (England), Milivoje Novakovic (Slóvenía)
4 mörk
Klaas-Jan Huntelaar (Holland), Maraoune Fellaini (Belgía), Ivan Perisic (Króatía), Borek Dockal (Tékkland), Shaun Maloney (Skotland), Arkadiusz Milik (Pólland), Xherdan Shaqiri (Sviss)