Frami og fáránleiki Sigríður Jónsdóttir skrifar 2. september 2015 10:45 Takataka LÓKAL/Reykjavík Dance Festival Smiðjan – Listaháskóli Íslands Handrit/Leikstjórn/Tónlist: Björn Leó Brynjarsson Leikur: Kolbeinn Arnbjörnsson Dramatúrg: Pétur Ármannsson Vídeó/Grafík/SFX: Daníel Þorsteinsson Aðstoð við hreyfingar: Brogan Davison Ónefndur myndlistarmaður er reiður, eiginlega algjörlega brjálaður. Hann situr á nærbuxunum einum fata, fyrir utan forláta íþróttaskó, og gerir sig tilbúinn fyrir opnun nýrrar myndlistarsýningar eftir Ásgrím. Sá er aldrei nefndur fullu nafni heldur en allar líkur eru á að hér sé um að ræða hinn umdeilda Ásgrím Ásgrímsson. Söguhetjan hatar smeðjuna og grunnhyggnina sem fylgir listaheimi samtímans á Íslandi en þráir samt sem áður glæsta framtíð á sama vettvangi, jafnvel heimsfrægð. Hér er um að ræða nýtt leikverk eftir Björn Leó Brynjarsson sem einnig sér um tónlistina og leikstýrir sýningunni. Ný leikrit eru ætíð fagnaðarefni og spennandi verður að sjá hvað Björn Leó gerir næst. Hann hefur gott eyra fyrir hnyttnum texta og tekst hér á við ímynd karlmennskunnar, væntingar annarra og hræsni nútímasamfélagsins. Kolbeinn Arnbjörnsson leikur vansæla listamanninn af kostgæfni. Hann spígsporar um sviðið fullur sjálfstrausts en hikar ekki við að sýna vanmátt þessa einmana manns. Listamaðurinn er sjálfumglaður og hugsar vel um heilsuna en virðist alltaf rekast á sálræna veggi í sinni tilvist. Kolbeinn keyrir í textann af fullum krafti en finnur blæbrigði á óvæntustu stöðum. Leikstjórn Björns Leós og sviðshreyfingar Brogan Davison styðja virkilega vel við textann. Þannig lyfta þau textanum á hærra plan, undirstrika absúrdismann sem einkennir líf listamannsins og brjóta einleikjaformið upp á frumlegan hátt. Einnig er eftirtektarvert að Björn Leó hikar ekki við að leyfa sviðinu að standa tómu á vissum tímapunktum í sýningunni þannig að textinn fær fulla athygli áhorfenda. Daníel Þorsteinsson sér um sviðsmyndina en hún er virkilega eftirminnileg, nýstárleg og spennandi. Hann notast við tölvuteiknaðan bakgrunn sem færir einfalda sviðsmyndina inn í nýjar víddir og endurspeglar aftengingu listamannsins við samfélagið á áhrifaríkan hátt. Aftur á móti er sýningin ekki gallalaus, þrátt fyrir virkilega skýra fagurfræði nær sú vinna ekki að rétta sýninguna alveg af. Þegar mörkin á milli fantasíu og veruleika verða of óskýr minnka hin raunverulegu áhrif sýningarinnar, það er aldrei nógu mikið að veði, listamaðurinn tapar aldrei neinu nema kannski sjálfsvirðingunni. Ádeilan verður af þessum sökum bitlaus og örlítið sjálfhverf. Ástandið nær aldrei lengra heldur en ofbeldisfullir draumórar, bílaeltingaleikur um meginland Evrópu og haugar af eiturlyfjum. Af þessum sökum verður sýningin frekar eintóna þar sem erfitt er að finna til samúðar með eða hafa áhuga á aðalpersónunni. Einnig skortir konurnar í verkinu atbeina; þær eru annaðhvort mæður sem oftar en ekki eru að skipta sér af, kynferðisleg tákn eða líkamar sem auðvelt er að nema á brott. Aftengdar raddir sem kvarta eða spyrja listamanninn spurninga sem hann er ekki tilbúinn til að svara og þykir þær pirrandi. Vigdís, konan sem listamaðurinn hefur augastað á og gæti verið fyrrverandi kærasta, fær ekki rödd fyrr en langt er liðið á verkið og þá í frekar takmörkuðu formi. Auðvitað er aðalsöguhetjan miðpunktur verksins en karllæga sjónarhornið verður þreytandi til lengdar. Frami er sýning eftir spennandi leikskáld, í einkar góðri leikstjórn, en vandamálið liggur í kjarna verksins. Ónefndi listamaðurinn mótmælir hástöfum óréttlæti heimsins og grunnhyggni nútímalistar en verkið kafar aldrei nægilega djúpt í málefnið.Niðurstaða: Áhugavert fyrsta leikverk eftir spennandi höfund en skortir dýpt og víðara sjónarhorn. Leikhús Menning Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ Tónlist Lára og Jens verða mamma og pabbi Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Takataka LÓKAL/Reykjavík Dance Festival Smiðjan – Listaháskóli Íslands Handrit/Leikstjórn/Tónlist: Björn Leó Brynjarsson Leikur: Kolbeinn Arnbjörnsson Dramatúrg: Pétur Ármannsson Vídeó/Grafík/SFX: Daníel Þorsteinsson Aðstoð við hreyfingar: Brogan Davison Ónefndur myndlistarmaður er reiður, eiginlega algjörlega brjálaður. Hann situr á nærbuxunum einum fata, fyrir utan forláta íþróttaskó, og gerir sig tilbúinn fyrir opnun nýrrar myndlistarsýningar eftir Ásgrím. Sá er aldrei nefndur fullu nafni heldur en allar líkur eru á að hér sé um að ræða hinn umdeilda Ásgrím Ásgrímsson. Söguhetjan hatar smeðjuna og grunnhyggnina sem fylgir listaheimi samtímans á Íslandi en þráir samt sem áður glæsta framtíð á sama vettvangi, jafnvel heimsfrægð. Hér er um að ræða nýtt leikverk eftir Björn Leó Brynjarsson sem einnig sér um tónlistina og leikstýrir sýningunni. Ný leikrit eru ætíð fagnaðarefni og spennandi verður að sjá hvað Björn Leó gerir næst. Hann hefur gott eyra fyrir hnyttnum texta og tekst hér á við ímynd karlmennskunnar, væntingar annarra og hræsni nútímasamfélagsins. Kolbeinn Arnbjörnsson leikur vansæla listamanninn af kostgæfni. Hann spígsporar um sviðið fullur sjálfstrausts en hikar ekki við að sýna vanmátt þessa einmana manns. Listamaðurinn er sjálfumglaður og hugsar vel um heilsuna en virðist alltaf rekast á sálræna veggi í sinni tilvist. Kolbeinn keyrir í textann af fullum krafti en finnur blæbrigði á óvæntustu stöðum. Leikstjórn Björns Leós og sviðshreyfingar Brogan Davison styðja virkilega vel við textann. Þannig lyfta þau textanum á hærra plan, undirstrika absúrdismann sem einkennir líf listamannsins og brjóta einleikjaformið upp á frumlegan hátt. Einnig er eftirtektarvert að Björn Leó hikar ekki við að leyfa sviðinu að standa tómu á vissum tímapunktum í sýningunni þannig að textinn fær fulla athygli áhorfenda. Daníel Þorsteinsson sér um sviðsmyndina en hún er virkilega eftirminnileg, nýstárleg og spennandi. Hann notast við tölvuteiknaðan bakgrunn sem færir einfalda sviðsmyndina inn í nýjar víddir og endurspeglar aftengingu listamannsins við samfélagið á áhrifaríkan hátt. Aftur á móti er sýningin ekki gallalaus, þrátt fyrir virkilega skýra fagurfræði nær sú vinna ekki að rétta sýninguna alveg af. Þegar mörkin á milli fantasíu og veruleika verða of óskýr minnka hin raunverulegu áhrif sýningarinnar, það er aldrei nógu mikið að veði, listamaðurinn tapar aldrei neinu nema kannski sjálfsvirðingunni. Ádeilan verður af þessum sökum bitlaus og örlítið sjálfhverf. Ástandið nær aldrei lengra heldur en ofbeldisfullir draumórar, bílaeltingaleikur um meginland Evrópu og haugar af eiturlyfjum. Af þessum sökum verður sýningin frekar eintóna þar sem erfitt er að finna til samúðar með eða hafa áhuga á aðalpersónunni. Einnig skortir konurnar í verkinu atbeina; þær eru annaðhvort mæður sem oftar en ekki eru að skipta sér af, kynferðisleg tákn eða líkamar sem auðvelt er að nema á brott. Aftengdar raddir sem kvarta eða spyrja listamanninn spurninga sem hann er ekki tilbúinn til að svara og þykir þær pirrandi. Vigdís, konan sem listamaðurinn hefur augastað á og gæti verið fyrrverandi kærasta, fær ekki rödd fyrr en langt er liðið á verkið og þá í frekar takmörkuðu formi. Auðvitað er aðalsöguhetjan miðpunktur verksins en karllæga sjónarhornið verður þreytandi til lengdar. Frami er sýning eftir spennandi leikskáld, í einkar góðri leikstjórn, en vandamálið liggur í kjarna verksins. Ónefndi listamaðurinn mótmælir hástöfum óréttlæti heimsins og grunnhyggni nútímalistar en verkið kafar aldrei nægilega djúpt í málefnið.Niðurstaða: Áhugavert fyrsta leikverk eftir spennandi höfund en skortir dýpt og víðara sjónarhorn.
Leikhús Menning Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ Tónlist Lára og Jens verða mamma og pabbi Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira