Innlent

Bjarni fékk föðurlegt klapp á bakið frá framkvæmdastjóra OECD

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Helstu áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í efnahagslífinu næstu misseri eru miklar launahækkanir og losun fjármagnshafta. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og að góðar horfur í efnahagslífinu á Íslandi séu eftirtektaverðar.

Efnahags- og framfarastofnunin gerir á tveggja ára fresti nýjar skýrslur um aðildarríki sín. Angel Gurría, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, er nú staddur hér á landi og kynnti í dag nýja skýrslu um Ísland. Í skýrslunni kemur fram að horfur í íslenskum efnahagsmálum eru góðar. Ísland hafi jafnað sig hraðar en önnur Evrópuríki eftir fjármálahrunið árið 2008.

Stofnunin gerir ráð fyrir áframhaldandi hagvexti hér á landi á næstu árum. „Það verður um 4% hagvöxtur hér á þessu ári og um 3% á næsta ári og það er í alþjóðlegu samhengi mjög mikill hagvöxtur. Þið eruð líka með fjárlög í jafnvægi, jafnvel með smáafgangi,“ segir Angel Gurría.

Hann segir stjórnvöld standa frammi fyrir nokkrum áskorunum. Þær helstu séu losun fjármagnshaftanna og miklar launahækkanir sem samið hafi verið um á vinnumarkaðnum síðustu misseri.

„Þegar þið semjið um 20 eða 30% launahækkanir er það augljóslega ekki sjálfbært þegar til lengri tíma er litið. Það er af því að þetta er mjög hatrammt ferli. Einkageirinn vill ekki átök, ekki verkföll, verkalýðsfélögin þrýsta á og ríkisstjórnin er þarna á milli og þarf stundum að borga hluta reikningsins, svo þetta er ekki mjög skilvirkt kerfi. Við leggjum til að það verði tekið á þessu og kerfið gert skilvirkar og það verði minni núningur í kerfinu,“ segir Angel Gurría framkvæmdastjóri OECD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×