Innlent

Veltir því upp að sleppa Menningarnótt á næsta ári og setja féð í að hjálpa flóttamönnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Þetta er nú bara hugmynd en ekki formleg tillaga í þessari byltingu sem nú er í gangi varðandi það hvað hver og einn getur gert.“
„Þetta er nú bara hugmynd en ekki formleg tillaga í þessari byltingu sem nú er í gangi varðandi það hvað hver og einn getur gert.“ vísir
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, veltir því upp á Facebook-síðu sinni í dag hvort að Reykjavíkurborg geti sleppt því að halda Menningarnótt á næsta ári og setja í staðinn féð í að aðstoða flóttamenn.

„Þetta er nú bara hugmynd en ekki formleg tillaga í þessari byltingu sem nú er í gangi varðandi það hvað hver og einn getur gert. Því datt mér í hug hvort að þetta gæti verið táknrænt framlag borgarinnar,“ segir Hildur í samtali við Vísi.

Hún segir borgina vissulega þurfa að styrkja sína innviði til lengri tíma litið til að gera megi hlutina vel og þeir fjármunir sem fara í Menningarnótt leysi ekki allan vandann. Þetta gæti þó verið fallegt framlag sem Reykvíkingar gætu verið stoltir af.

Aðspurð segir Hildur kostnað við Menningarnótt hlaupa á 30-50 milljónum á ári; hversu mikið kosti fari að einhverju leyti eftir því hvaða kostnaður sé tekinn með þegar krónurnar eru taldar. Þá þurfi borgin að ræða við ríkið um hvernig best megi halda utan um þessi mál til frambúðar.

En býst hún við að ræða þessa hugmynd sína að minnsta kosti óformlega við félaga sína í borgarstjórn?

„Já, hví ekki? Það er að minnsta kosti þverpólitísk samstaða í borginni um að taka á móti fleiri flóttamönnum. Ég vona því að það séu allir að leita lausna. Því miður er staða borgarsjóðs slæm og taprekstur í grunnþjónustu borgarinnar og þá verður að leita annarra leiða. Það er auðvitað verkefni til framtíðar en með þessum hætti gætum við brugðist við strax,“ segir Hildur.

Hálfs uppgjör borgarsjóðs verður rætt í borgarstjórn á eftir en það var kynnt í liðinni viku. Í uppgjörinu kom fram að rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs væri neikvæð um rúma þrjá milljarða króna.

Þá verður einnig rædd á fundinum tillaga um það hvernig Reykjavíkurborg getur brugðist við þeim fjölda flóttamanna sem nú kemur til Evrópu frá stríðshrjáðum svæðum á borð við Sýrland og Írak. Að því er fram kemur á Kjarnanum lýsir borgin því yfir í tillögunni að hún sé tilbúin að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Ég er að spá. Er kannski pæling að borgin leggi sitt af mörkum með að sleppa því í fjárhagsáætlun næsta árs að halda...

Posted by Hildur Sverrisdóttir on Tuesday, 1 September 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×