Erlent

Um tíu þúsund flóttamenn til Austurríkis síðastliðinn sólarhring

Birgir Olgeirsson skrifar
Um tíu þúsund flóttamenn hafa komið til Austurríkis síðastliðinn sólarhring.
Um tíu þúsund flóttamenn hafa komið til Austurríkis síðastliðinn sólarhring. Vísir/EPA
Um tíu þúsund flóttamenn mættu til Austurríkis í dag. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá þessu á vef sínum. Þar kemur fram að flóttamennirnir voru upphaflega sendir til Ungverjalands af yfirvöldum í Króatíu sem sögðust ekki geta við fleirum. Um tuttugu þúsund flóttamenn hafa komið til Króatíu síðan á miðvikudag en yfirvöld höfðu áður boðið þá velkomna.

Yfirvöld í Ungverjalandi ákváðu að senda flóttamennina til Austurríkis og sökuðu yfirvöld í Króatíu um að fara ekki eftir reglum um skráningu flóttamanna. BBC segist hafa heimildir fyrir því að yfirvöldum í Ungverjalandi hefðu einnig láðst að fara eftir þeim reglum.

Lögreglan í Austurríki taldi um níu þúsund manns hafa farið yfir landamærin síðasta sólarhringinn og er talið að sú tala sé nú komin í tíu þúsund.

Innanríkisráðherra Austurríkis, JohannaMikl-Leitner, sakaði nágrannalöndin um að fara ekki eftir reglum Evrópusambandsins.

Einn flóttamannanna sem kom til bæjarins Heiligenkreuz í Austurríki í dag frá Ungverjalandi sagði við AP-fréttaveituna að honum liði eins og hann væri endurfæddur. „Það skiptir engu máli hvort mér seinkar eða hvort ég verð hér í tvo daga. Það mikilvæga er að ég loksins kominn og er öruggur.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×