Erlent

Lögsótt því einhverfur sonur þeirra lækkar fasteignaverð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Húsið er staðsett í miðjum Kísildalnum.
Húsið er staðsett í miðjum Kísildalnum. vísir/getty
Foreldrar einhverfs barns í borginni Sunnyvale í Kaliforníu-ríki takast nú á við lögsókn frá nágrönnum sínum þar sem nágrannarnir vilja meina að barnið þeirra valdi því að verð á fasteignum þeirra lækki. Fjallað var um málið á vefsíðunni Mercury News.

Þegar hjónin Vidyut Gopal og Parul Agrawal fréttu af því að sonur þeirra ætti til að rífa í hár annarra barna og bíta fólk í kringum sig brugðu þau á það ráð að ráða manneskju til að fylgjast með syni sínum. Að auki fékk hann lyf sem áttu að róa hann niður.

Það dugði ekki til þar sem að nágrannar þeirra kenndu ellefu ára syni þeirra um að „annars líflegur fasteignamarkaður væri nú á lítilli hreyfingu.“ Vildu þau meina að hegðun sonar þeirra væri þess valdandi að fólk veigraði sér við að setja hús sín á sölu þar sem hann hefði áhrif á sölumöguleika.

„Þetta hefur verið frekar ömurlegt en við gerum okkar besta til að láta þetta ekki hafa áhrif á okkur,“ segir Gopal en hann starfar sem verkfræðingur hjá fyrirtæki í Kísildalnum. Eiginkona hans starfar hjá NASA.

Sóknaraðilar málsins hafa enn ekki fengist til að tjá sig við fjölmiðla en það hafa nágrannar þeirra gert. Þeir eru flestir sammála um að málið sé hið versta en lögsókn gæti hafa verið nauðsynleg í kjölfar þess að ekki tókst að hemja drenginn sem meðal annars reyndi að hjóla á nágranna sinn og hefur víst ítrekað reynt að setjast á kött gamallar konu sem býr í götunni.

Málið hefur vakið upp talsverða reiði meðal fólks sem á börn sem glíma við raskanir enda þykir þeim framkoma nágrannanna vera ansi ósanngjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×