Viðskipti innlent

Hafa náð samningum um lokauppgjör Icesave-krafna

Birgir Olgeirsson skrifar
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), Hollenski seðlabankinn (DNB) og Breski innstæðutryggingasjóðurinn (FSCS) hafa náð samningum um lokauppgjör krafna sem stafa frá innstæðum sem Landsbanki Íslands hf. (nú LBI hf.) safnaði í útibúum sínum í Amsterdam annars vegar og London hins vegar undir vörumerkinu Icesave.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tryggingasjóði innstæðueigenda en þar segir að samningurinn feli í sér að TIF greiddi mótaðilum sínum samtals 20 milljarða íslenskra króna. Fjárhæðin var greidd með hluta þeirra fjármuna sem eru nú þegar til staðar í B deild TIF. Í B deild eru vistaðir fjármunir sem að mestu leyti var safnað fyrir bankahrunið í október 2008. Tryggingasjóðurinn segir Seðlabanka Íslands hafa veitt undanþágu frá gjaldeyrishöftum að því marki sem þurfti til að unnt væri að inna greiðslur af hendi.

Hafa DNB og FSCS, líkt og aðrir forgangskröfuhafar hjá LBI hf. fengið greiðslur frá LBI hf. sem nema alls um 85 prósentum af höfuðstól krafna. Gert er ráð fyrir að forgangskröfuhafar muni endurheimta höfuðstól krafna að fullu frá LBI hf.

Í tilkynningunni er Guðrún Þorleifsdóttir, formaður stjórnar TIF, sögð mjög ánægð með að TIF skyldi lánast að ná samningum um lokafrágang Icesave skuldbindinganna með greiðslu sem er vel viðráðanleg fyrir TIF og sanngjörn gagnvart öllum aðilum ágreiningsins. Samningurinn gerir TIF kleift að einbeita sér að megin hlutverki sínu að veita neytendum og öðrum innstæðueigendum á Íslandi tryggingu á innstæðum sínum.

Samninganefnd TIF var skipuð Guðrúnu Þorleifsdóttur, formanni stjórnar TIF, Brynjari Kristjánssyni, framkvæmdastjóra TIF og Gunnari Viðar hdl. frá LEX lögmannsstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×