Viðskipti innlent

Isavia fær ekki flýtimeðferð í málinu gegn Kaffitár

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsóms þar sem dómurinn hafnaði því að veita Isavia flýtimeðferð gegn Kaffitári í málinu sem varðar gögn í forvali um leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Isavia krafðist þess að úrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi og taldi einn þriggja dómara vanhæfan vegna þess að dómstjóri við dómstólinn hafði verið talinn vanhæfur.

Málið varðar höfnun Isavia á að veita Kaffitár gögn í keppninni „Commercial opportunities at Keflavík airport“ en samkeppnin var opinber og snerist um að vera veitt leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kaffitár fékk ekki leigurými og bað því um rökstuðning fyrir ákvörðuninni og um að fá upplýsingar um aðra umsækjendur. Isavia hafnaði að veita Kaffitár gögnin og fór þá Kaffitár með málið fyrir Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin féllst á með Kaffitári að Isavia bæri að afhenda gögnin.

Þrátt fyrir þetta neitar Isavia að afhenda gögnin og höfðaði mál til ógildingar úrskurðarins og krafðist flýtimeðferðar. Eins og fyrr segir hefur því nú verið hafnað að málið fái flýtimeðferð.

Hæstiréttur hafnaði því að dómarinn væri vanhæfur enda leiðir vanhæfi dómstjóra við dómstóla ekki til vanhæfis allra dómara. Hæstiréttur benti á að dómarar væru sjálfstæðir í störfum sínum, færu einungis eftir lögum og lytu þar aldrei boðvaldi annarra. Hæstiréttur taldi heldur ekki að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×