Erlent

Austurríkismenn senda tvö þúsund hermenn að landamærunum

Atli Ísleifsson skrifar
Varakanslari Þýskalands segist búast við að um milljón flóttamenn komi til Þýskalands á þessu ári.
Varakanslari Þýskalands segist búast við að um milljón flóttamenn komi til Þýskalands á þessu ári. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Austurríki hafa ákveðið að senda um tvö þúsund hermenn að landamærunum að Ungverjalandi og herða alla landamæragæslu vegna flóttamannastraumsins til landsins.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar ákvörðunar Þjóðverja að koma á tímabundnu landamæraeftirliti á landamærum Þýskalands og Austurríkis. Um þúsund flóttamenn höfðust við á lestarstöðinni í Salzburg í nótt eftir að lestarsamgöngur milli Austurríkis og Þýskalands voru stöðvaðar í gærdag.

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, greindi frá því í morgun að þýsk stjórnvöld búist við að um milljón flóttamenn komi til landsins á þessu ári.

Innanríkisráðherrar aðildarríkja ESB koma saman í Brussel síðar í dag til að ræða flóttamannavandann. Aðildarríki í Austur-Evrópu hafa mótmælt því að komið verði á bindandi kvótum um hvernig beri að skipta flóttamönnum milli aðildarríkja sambandsins.

Slóvakar greindu einnig frá því í morgun að eftirlit verði hert á landamærum Slóvakíu að Austurríki og Ungverjalandi.


Tengdar fréttir

Tugir drukknuðu á flótta sínum í gær

Yfir þrjátíu manns fórust, þar á meðal að minnsta kosti eitt barn, þegar trébáti með um 130 flóttamenn hvolfdi við gríska eyjaklasann Farmakonisi í gærmorgun. Daily Mail hafði um kvöldmatarleytið í gær eftir grísku strandgæslunni að 34 lík hefðu fundist.

Mikil togstreita innan Evrópusambandsins

„Maður sér að Þjóðverjar eru að fara af miklum þunga fram á endursamning á öllu kerfinu. Þeir eru farnir að tala mjög harkalega í garð þeirra ríkja sem neita að taka þátt í því að koma upp kvótafyrirkomulagi,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×