Erlent

Þjóðverjar búa sig undir komu 40 þúsund flóttamanna næstu tvo daga

Birgir Olgeirsson skrifar
Margir Þjóðverjar hafa tekið flóttamönnum opnum örmum.
Margir Þjóðverjar hafa tekið flóttamönnum opnum örmum. Vísir/EPA
Yfirvöld í Þýskalandi undirbúa sig nú fyrir komu fjörutíu þúsund flóttamanna til landsins á næstu tveimur dögum. Það er tvöfaldur fjöldi þeirra flóttamanna sem komu til landsins um síðastliðna helgi.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir frá komu 3.600 flóttamanna til Munchen-borgar í morgun. Jafnframt segir BBC frá vaxandi áhyggjum þar í borg hvernig yfirvöld eigi að bregðast við ef jafn stór hópur er væntanlegur þangað.

Þýski herinn hefur verið kallaður út til að koma vistum til flóttamanna. Þýskaland hefur orðið að ákjósanlegum áfangastað fyrir flóttamenn frá Sýrlandi eftir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti því yfir að Dyflinarreglugerðinni yrði ekki beitt gegn þeim.  Tug þúsundir flóttamanna hafa farið í gegnum Tyrkland, Balkanskagann og Ungverjaland til að komast til Austurríkis, Þýskalands og Svíþjóðar.

Borgarstjóri Munchen, Dieter Reiter, hefur hvatt aðrar borgir í Þýskalandi til að efla aðstoða sýna við flóttamenn. Hann sagði það vera hneykslanlegt hvernig önnur svæði Þýskalands hefðu ekki boðið flóttamenn velkomna. BBC  segir ríkisstjórn Þýskalands vera að íhuga að taka yfir ónotað leiguhúsnæði í landinu og koma flóttamönnum þar fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×