Innlent

Ungverski tökumaðurinn: Segist hafa verið hrædd og verið að verja sig

Atli ísleifsson skrifar
Petra László segir eitthvað hafa "brostið innra með sér“ þegar flóttamennirnir ruddust framhjá röð lögreglumanna.
Petra László segir eitthvað hafa "brostið innra með sér“ þegar flóttamennirnir ruddust framhjá röð lögreglumanna.
Ungverski tökumaðurinn Petra László sem náðist á mynd þar sem hún sparkaði til og brá fæti fyrir flóttamenn við Röszke fyrr í vikunni hefur beðist afsökunar á gjörðum sínum.

Hún segir eitthvað hafa „brostið innra með sér“ þegar flóttamennirnir ruddust framhjá röð lögreglumanna.

László var rekin frá stöðinni N1TV eftir að myndir af atvikunum birtust á netinu. Í bréfi til blaðsins Magyar Nemzet segist László hafa verið í áfalli frá því á þriðjudaginn. Hún segist sjálf ekki vera „miskunnarlaus rasisti“ og ekki trúa að hún hafi gert það sem hún gerði. Hún hafi einfaldlega verið gripin hræðslu þegar flóttamennirnir ruddust framhjá lögreglu.

„Verið var að taka upp, fleiri hundruð flóttamanna ruddust framhjá lögreglu, og einn þeirra hljóp í áttina að mér og ég varð hrædd. Síðan brast eitthvað innra með mér. Ég hélt að verið væri að ráðast á mig og ég varð að verja mig. Það getur reynst erfitt að taka góðar ákvarðanir þegar fólk er gripið hræðslu,“ segir László.

Hún segist reiðubúin að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Hún sé þó ekki miskunnarlaus, rasisti eða tökumaður sem sparki í börn. „Ég á ekki skilið að verða fyrir þessum pólitísku nornaveiðum sem beinast nú gegn mér, eða að verða úthúðuð eða fá líflátshótanir. Ég er einungis atvinnulaus móðir lítilla barna sem tók ranga ákvörðun. Ég biðst innilegrar afsökunar.“

László var rekin frá N1TV eftir að þýski blaðamaðurinn Stephan Richter birti myndskeið af gjörðum hennar í ungverska bænum Röszke við serbnesku landamærin. N1TV er með tengsl við hægriflokkinn Jobbik.

Ungverskir saksóknarar segja að mál verði höfðað gegn László.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×