Viðskipti innlent

Kaupás skoðar bensínsölu við verslanir Krónunnar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Víða erlendis hefur það færst í auka að matvöruverslanir séu með bensínstöð á lóð sinni undir nafni sínu.
Víða erlendis hefur það færst í auka að matvöruverslanir séu með bensínstöð á lóð sinni undir nafni sínu. Vísir/GVA
Kaupás hyggst hefja sölu á bensíni undir nafni Krónunnar við verslanir Krónunnar, samkvæmt heimildum Vísis. Jón Björnsson forstjóri Festi/Kaupás staðfestir í samtali við Vísi að verið sé að skoða þetta. Það er möguleiki á samstarfi við annan aðila, en einnig á að hefja sölu undir nafni Krónunnar. Jón segir að þeir séu komnir sæmilega langt í ferlinu, en endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir, fyrr en eftir nokkrar vikur.

Víða erlendis, meðal annars á Englandi og í Skandinavíu, hefur það færst í auka að matvöruverslanir séu með bensínstöð á lóð sinni undir nafni sínu.  Nú þegar er Krónan með bensínstöð frá Atlantsolíu á einni lóð sinni. Einnig eru komnar rafgæslustöðvar hjá tveimur verslunum Krónunnar, sem rafmagnsbílar geta nýtt sér, á Akranesi og í Lindum. Engin önnur matvöruverslun á Íslandi hefur áður selt bensín á lóðum sínum undir nafni verslunarinnar. Bandaríska verslunarkeðjan Costco, sem hyggst opna í Garðabæ á næsta ári, mun vera með bensínstöð þar sem hægt verður að fá bensín, dísel og hugsanlega metangas. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×