
Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna 78, segist geta verið sammála Kristjáni Valum það eitt að það þurfi að eyða óvissu í málinu.

Frumvarp til breytingar á lögum er ekki á þingmálaskrá innanríkisráðherra fyrir komandi vetur í þinginu. Umræðan þykir Ólöfu hins vegar tilefni til að farið verði yfir þessi mál.
Annars vegar hjá kirkjunni sjálfri, að hún hafi skýra afstöðu og jafnframt að löggjöfin sé skýr um þessi réttindi. Ólöf mun leita eftir tillögum biskups við setningu reglna um það hvenær prestum sé skylt eða eftir atvikum heimilt að framkvæma hjónavígslu. „Reglur um það hafa ekki verið settar, en aðkoma biskups að þeim reglum byggir væntanlega á sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem trúfélags. Hins vegar telur ráðuneytið að tilefni sé til að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt."

„Ýmis álitamál voru uppi í þeirri umræðu, m.a. það að misræmi væri á milli laga þegar litið var til borgaralegra vígslumanna og trúarlegra. Sú skylda var lögð á borgaralega vígslumenn að gefa ávallt saman meðan slíkt var ekki eins afdráttarlaust þegar litið var til trúarlegra vígslumanna. Í nefndaráliti meirihlutans kom fram að hann taldi ekki unnt að leggja skyldu presta að gefa saman hjón þar sem það gæti farið í bága við réttindi viðkomandi presta."
Ólöf nefnir einnig að þá hafi komið til umræðu hvort trúarlegir vígslumenn ættu yfirleitt að geta gefið hjón saman í lögformlegan gerning. „Hvort rétt væri að stíga það skref að trúarleg vígsla væri blessunarathöfn en hin lögformlega væri alltaf borgaraleg, þ.e. hjón yrðu að láta skrá sig hjá yfirvaldi og gæti þá í kjölfarið valið blessunarathöfn trúfélags.“