„Myrkvinn var alveg óskaplega fallegur þegar hann náði hámarki og sveik svo sannarlega ekki. Þetta er eins og ég segi alveg óhemju fallegt, kyrrlát fegurð yfir þessu öllu saman en það eru í raun einu orðin sem ég hef; bara mjög ánægjuleg,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Almyrkvi varð á tungli í nótt, og náði hámarki klukkan rétt rúmlega þrjú í nótt. Veðurskilyrði voru að sögn Sævars með ágætum, en næsta tunglmyrkva er að vænta eftir fjögur ár.
„Það kom svona mest á óvart og var svona það ánægjulega við þetta, því framan af leit ekkert út fyrir að það yrði gott veður. En það rættist úr að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann sást ágætlega og vonandi sást hann frá fleiri stöðum landsins,“ segir Sævar.
„Næsti almyrkvi verður hjá okkur 21. janúar 2019 þannig að það eru fjögur ár í næsta, en sá myrkvi verður á svipuðum tíma og þessi sem varð í nótt. Þannig að ég er mjög feginn að hafa náð að sjá þennan,“ bætir hann við.
Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sást hann best frá Norður-Ameríku og Evrópu, og að öllu leyti frá Íslandi.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af tunglmyrkvanum, sem lesendur Vísis tóku.
Myrkvinn stóðst allar væntingar Sævars Helga

Tengdar fréttir

Íslendingar fá að berja blóðrauðan ofurmána augum
Almyrkvi verður á tungli aðfaranótt mánudagsins 28. september, sem mun sjást að öllu leyti frá Íslandi, ef veður leyfir.

Ætlar þú að vaka í nótt? Vísir auglýsir eftir myndum af blóðmánanum
Almyrkvi verður á tungli í nótt og mun hann sjást að öllu leyti frá Íslandi, þar sem veður leyfir.