Erlent

Dæmdir í 520 ára fangelsi fyrir að myrða þrettán manns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Mexíkóborg.
Frá Mexíkóborg. vísir/getty
Dómstóll í Mexíkóborg hefur dæmt þrjá menn í 520 ára fangelsi fyrir að ræna og myrða þrettán manns í maí árið 2013.

Fórnarlömbin voru á aldrinum 17 til 34 ára. Þeim var rænt fyrir utan bar sem kallast Heaven og er skammt frá aðalgötu Mexíkóborgar, Paseo de la Reforma. Líkin fundust hins vegar ekki fyrr en þremur mánuðum síðar og þá í fjöldagröf fyrir utan borgina. Ekkert hafði þá spurst til þeirra síðan þau sáust síðast á barnum.

Að því er fram kemur í frétt BBC er lögreglan enn að rannsaka málið og hefur tólf til viðbótar grunaða um aðild að því. Talið er að morðin hafi verið hefnd fyrir morð á fíkniefnasmyglara nokkrum dögum áður á öðrum bar í borginni.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Mexíkóborg þar sem hrottalegir glæpir tengdir eiturlyfjasölu hafa ekki verið jafntíðir þar og í öðrum borgum landsins, til að mynda við landamærin að Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×