Erlent

Rússum vel tekið í strandhéruðum Sýrlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Börn að leik í Latikaborg í Sýrlandi
Börn að leik í Latikaborg í Sýrlandi Vísir/AFP
Íbúar strandhéraða Sýrlands, þar sem stjórnarher Bashar al-Assad stjórnar enn, taka rússneskum hermönnum fagnandi. Aukin hernaðarítök Rússa þar í landi hafa endurvakið öryggistilfinningu íbúa sem telja fullvíst að uppreisnarhópar muni ekki sækja fram gegn stjórnarhernum á meðan Rússar styðja þá.

„Á hverjum morgni, milli sex og sjö, sé ég nokkrar rússneskar flugvélar á himni og mér líður betur,“ segir einn viðmælandi AFP fréttaveitunnar.

„Það er ekkert stórkostlegra á morgnanna en að drekka kaffi og reykja pípu á svölunum og hlusta á sinfóníu rússneskra flugvéla,“ segir annar. „Þeir voru vinir okkar og nú eru þeir bræður okkar. Meiri bræður okkar en margir arabar.“

Rússar hafa komið fyrir margvíslegum hernaðartækjum og búnaði í Sýrlandi og taka virkan þátt í átökunum.Vísir/Graphicnews
Hernaðarsérfræðingur sem AFP ræddi við segir Rússa stjórna hlutum stjórnarhersins. Þeir þjálfi flugmenn og fljúgi drónum.

Latakia hérað er heimahérað Alavíta minnihlutahópsins, en Assad er úr þeim hópi. Nú situr bandalag uppreisnarhópa nánast um héraðið og eldflaugum er reglulega skotið á Latakia borg.

Aukin umsvif Rússa í Sýrlandi virðast hafa breytt hugarfari margra varðandi aðkomu Assad að mögulegri lausn á borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Bæði yfirvöld Tyrklands og Þýskalands settu fram þann möguleika í vikunni.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, munu funda á mánudaginn. Washington og Moskva eru þó ósammála um hvað skuli rætt á fundi þeirra.

Putin og Obama munu funda um Sýrland og mögulega Úkraínu á mánudaginn.Vísir/AFP
Obama vill ræða um átökin í austurhluta Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar, sem studdir eru af Rússum, berjast gegn stjórnvöldum í Kænugarð. Putin vill hinsvegar ræða um Sýrland.

Rússar hafa komið fyrir flugvélum, skriðdrekum, stórskotaliði og hermönnum í Sýrlandi. Þá hefur mikil uppbygging átt sér stað í flotastöð og á herflugvelli, sem Rússar hafa komið sér fyrir á.

„Auðvitað verðar aðal umræðuefnið Sýrland,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður Putin samkvæmt Reuters. Aðspurður hvort einnig yrði rætt um Úkraínu sagði hann: „Ef tími gefst.“

„Það verður tími til þess,“ sagði Josh Earnest, talsmaður Obama.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×