Innlent

Hámarks orlofsgreiðsla helmingi lægri en 2008

Sæunn Gísladóttir skrifar
Að raunvirði hefur hámarksupphæð hjá fæðingarorlofssjóði lækkað um helming eftir hrun. Árið 2008 var hámarksupphæðin 536 þúsund krónur (823 þúsund krónur á núvirði), en árið 2015 var hún 370 þúsund krónur, eða 450 þúsund krónum lægri. Samhliða þessari lækkun hefur feðrum sem fara í fæðingarorlof farið fækkandi úr 90,9 prósentum 2008 í 78,3 prósent 2014. Þeir feður sem taka orlof taka einnig færri daga. Ekki stendur til að hækka fjárveitingar til fæðingarorlofssjóðs í nýjum fjárlögum. Formaður velferðarnefndar segir þetta hneyksli og hyggst Samfylkingin leggja fram frumvarp um hækkun hámarksins að nýju.

Birkir Jón Jónsson
Í fjárlögum fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að útgjöld fæðingarorlofssjóðs verði 9,28 milljarðar króna, sem jafngildir 221 milljónar króna raunlækkun frá fjárlögum þessa árs. Lækkunin skýrist þó af niðurfellingu fjárheimildar, því má segja að útgjöld sjóðsins standi í stað milli ára. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur nemi áfram 370 þúsund krónum árið 2016.

Rætt hefur verið um að lengja orlofið, en ekki hefur orðið af þeim áformum. Birkir Jón Jónsson, formaður starfshópsins sem móta á tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi, telur að það sé til lítils að lengja fæðingarorlofið ef foreldrar nýta það ekki að fullu í dag. 

„Greiðslurnar eru einfaldlega of lágar í dag. Það þarf fyrst að hækka greiðslur til foreldra og í framhaldi af því væri rétt að horfa til lengingar orlofsins. Við vorum með mjög gott kerfi fyrir hrun, sérstaklega þegar horft var til þátttöku feðra og nú þarf að endurreisa það,“ segir Birkir Jón.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir það pólitíska ákvörðun ráðherra að leggja ekki áherslu á fæðingarorlofið og að það sé gríðarlega alvarlegt. „Þetta þýðir í raun og veru að feðrum sem taka fæðingarorlof muni fækka enn frekar,“ segir Sigríður Ingibjörg. Hún telur að bæði þurfi að hækka þakið og lengja orlofið. Mikill niðurskurður átti sér stað eftir hrun, þakið var síðan hækkað úr 300 í 350 þúsund krónur árið 2013. 

„En það hefur í raun og veru ekki hækkað síðan.“ Sigríður Ingibjörg segir það vera „skandal“ að halda hámarksgreiðslum óbreyttum. „Þetta er bara algjör hneisa,“ segir hún og kveður Samfylkinguna munu leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að hækka hámarksupphæðina í 500 þúsund krónur frá og með fyrsta janúar 2016. Haldið verði áfram með hækkunina markvisst og orlofið lengt 2017 og 2018. „Sveitarfélögin eru í auknum mæli að reyna að finna leiðir til þess að brúa bilið og við teljum að þetta sé sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga,“ segir Sigríður Ingibjörg. 

Ekki náðist í Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra við vinnslu þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×