„Hið rétta er að hann er hluthafi í félaginu og lagði fram eigendalán til félagsins síðasta vor. Í síðustu viku óskaði hann eftir að ganga úr félaginu og fá endurgreitt það sem hann lagði til þess. Samþykkti ég það og var um samið að endurgreiðslan kr. 1.626.000.- yrði greidd þegar eign félagsins yrði seld,“ segir Bergvin í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kvöld.
Þá segist hann ekki telja sig hafa sýnt óheiðarleika í þessum viðskiptum, né hafa gerst brotlegur í starfi sem formaður Blindrafélagsins „enda stofnun og rekstur þessa fasteignafélags Blindrafélaginu alls óviðkomandi“. Hann segir jafnframt að átök hafi verið innan stjórnar félagsins og valdabarátta, allt frá því hann var kjörinn formaður með einu atkvæði á síðasta ári.
Stjórn félagsins sakaði Bergvin í gær um að hafa misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns, og þar með sýnt af sér siðferðislegt dómgreindarleysi. Boðað hefur verið til félagsfundar 30.september þar sem málið verður kynnt félagsmönnum.