Fótbolti

Einkunnagjöf íslenska landsliðsins: Glódís og Hallbera stóðu upp úr

Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki með liðsfélögum sínum í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki með liðsfélögum sínum í kvöld. Vísir/Vilhelm
Glódís Perla Viggósdóttir og Hallbera Gísladóttir stóðu upp úr í íslenska landsliðinu í öruggum 2-0 sigri á Hvíta-Rússlandi í kvöld að mati Vísis og Fréttablaðsins.

Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu í sitt hvorum hálfleiknum en íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í leiknum og mörkin hefðu hæglega getað orðið mun fleiri.

Nánari útlistun á hverri einkunn má sjá hér fyrir neðan.

Byrjunarlið:

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður 6

Hafði ekkert að gera í leiknum en bjargaði vel á 27. mínútu þegar Pilipenko komst inn í slæma sendingu Önnu Bjarkar til baka.

Rakel Hönnudóttir, hægri bakvörður 7

Studdi vel við Fanndísi og átti ekki í neinum vandræðum í vörninni.

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 8 - Maður leiksins

Hafði lítið fyrir því að stöðva sóknir Hvít-Rússa og átti auk þess margar frábærar sendingar fram völlinn. Frábær leikur hjá Glódísi og það fáránlegt að hugsa til þess að hún sé bara tvítug.

Anna Björk Kristjánsdóttir, miðvörður 6

Var nálægt því að gefa gestunum mark um miðjan fyrri hálfleik og klúðraði einnig dauðafæri eftir 13 mínútna leik en gerði annars fátt rangt.

Hallbera Gísladóttir, vinstri bakvörður 8

Óþreytandi í að hlaupa upp og niður kantinn og átti margar gullfallegar fyrirgjafir. Ein þeirra skilaði marki og þá náði Hallbera í vítið sem Margrét Lára klúðraði.

Fanndís Friðriksdóttir, hægri kantmaður 7

Var mjög ógnandi og gerði vinstri bakverði gestanna lífið leitt. Átti nokkrar hættulegar fyrirgjafir sem samherjum hennar tókst ekki að nýta.

Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður 7

Spilaði aftar en oft áður en dreifði boltanum vel og hélt góðu tempói í spilinu.

Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður 6

Hefur átt betri landsleiki en skoraði annað markið á 70. mínútu með góðum skalla eftir flott hlaup inn í teiginn.   

Hólmfríður Magnúsdóttir, vinstri kantmaður 7

Kom Íslandi á bragðið með góðu marki í 99. landsleiknum. Var róleg framan af seinni hálfleik en óx ásmeginn eftir því sem leið á hann.

Margrét Lára Viðarsdóttir, framherji 7

Var mikið í spilinu og síógnandi. Átti nokkrar fínar tilraunir en gekk illa að koma boltanum á markið. Hefði getað fagnað tímamótaleiknum með marki en skaut hátt yfir úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Harpa Þorsteinsdóttir, framherji 6

Gerði frábærlega þegar hún lagði upp markið fyrir Hólmfríði. Tók vel á móti boltanum og var lífleg í fyrri hálfleik. Spilaði ekki vel í seinni hálfleik og átti oft í vandræðum með ná tökum á og hreinlega hitta boltann inni í vítateignum.

Varamenn:

Berglind Björg Þorvaldsdóttir 5 (kom inn á fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur á 70. mínútu)

Sást ekki mikið en fór illa með gott færi skömmu eftir að hún kom inn á.

Sandra María Jessen - (kom inn á fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur á 84. mínútu)

Spilaði síðustu mínúturnar en sást lítið.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - (kom inn á fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur á 89. mínútu)

Kom inn á þegar Margrét Lára fékk heiðursskiptingu undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×