Erlent

Fjórðungur kvenkyns nema orðið fyrir ofbeldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt könnuninni voru einungis 28 prósent málanna tilkynnt til lögreglu eða annarra aðila.
Samkvæmt könnuninni voru einungis 28 prósent málanna tilkynnt til lögreglu eða annarra aðila. Vísir/Getty
Rúmlega 23 prósent kvenkyns háskólanema í Bandaríkjunum segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eins og nauðgunum, þukli eða óumbeiðnum kossum. Þetta kemur fram í einni umfangsmestu könnun af þessu tagi sem framkvæmd hefur verið í Bandaríkjunum.

Um 5,4 prósent karlkyns nemenda hafa sömu sögu að segja.

Samtök háskóla í Bandaríkjunum framkvæmdu könnunina í apríl og maí á þessu ári. Samtökin taka þó fram að líklegra sé að þeir sem hafi orðið fyrir ofbeldi hafi svarað könnuninni.

Könnunin var framkvæmd í 26 háskólum og var svarhlutfallið um tuttugu prósent.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í fyrra að kynferðislegt ofbeldi í Háskólum sé faraldur þar í landi og setti Hvíta húsið af stað starfshóp sem á að reyna að takast á við vandamálið.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni var sérstök lögreglusveit stofnuð í New York í síðasta mánuði. Starfsmönnum hennar er ætlað að eltast sérstaklega við brotamenn í háskólum. Menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna rannsakar nú fjölda háskóla í New York og hvort að lög varðandi hvernig taka eigi á ásökunum um kynferðislegt ofbeldi, hafi verið brotin þar.

Samkvæmt könnuninni voru einungis 28 prósent málanna tilkynnt til lögreglu eða annarra aðila. Flestir töldu atvikin ekki nægilega alvarleg. Aðrir sögðust hafa skammað sín eða þau trúðu ekki að málið yrði tekið alvarlega.

Langflestir sögðust þó trúa því að starfsmenn háskóla þeirra hefðu tekið ásökunum um kynferðislegt ofbeldi alvarlega.

Því lengur sem nemendur hafa verið skóla, þá minnka líkurnar á því að þau verði fyrir kynferðislegu ofbeldi, samkvæmt könnuninni. Þá kom áfengi eða eiturlyf við sögu í töluverðum fjölda atvika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×