Erlent

Dæmdur í rúmlega fimmtán ára fangelsi fyrir að bana óléttri eiginkonu sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Hin látna var 27 ára hælisleitandi frá Afganistan og dvaldi á heimili fyrir hælisleitendur í Hamar.
Hin látna var 27 ára hælisleitandi frá Afganistan og dvaldi á heimili fyrir hælisleitendur í Hamar. Vísir/AFP
Dómstóll í Noregi hefur dæmt 37 ára karlmann í fimmtán og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa banað eiginkonu sinni með því að stinga hana tuttugu sinnum í bænum Hamar í október síðastliðinn.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða börnum þeirra 600 þúsund norskar krónur, rúmar níu milljónir króna, í bætur – 250 þúsund norskar krónur til eldra barnsins og 350 þúsund til þess yngra.

Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að saksóknari hafi krafist sextán ára fangelsis, en þar sem maðurinn játaði brot sitt snemma og var samvinnusfús var ákveðið að dæma hann í fimmtán og hálfs árs fangelsi. Dómurinn hafnaði kröfu saksóknara um greiðslu skaðabóta til móður fórnarlambsins, en saksóknarinn segist annars sáttur með dóminn.

Verjandi mannsins segir ekki ljóst hvort dómnum verði áfrýjað.

Í reiðikasti

Í dómnum kemur fram að konan hafi verið stungin tuttugu sinnum í bakið og hafi yngra barn hjónanna verið vitni að árásinni. Ekkert kemur fram um ástæður morðsins, nema að maðurinn hafi verið í miklu reiðikasti þegar hann réðst á konu sína.

Maðurinn hélt því fram að konan hafi haft með sér hnífinn á staðinn þar sem hún varð síðar myrt. Lífsýni úr konunni og manninum fundust á hnífnum og kemur fram í dómnum að ekki sé hægt að fullyrða neitt um hvor þeirra hafi komið með hnífinn.

Lík konunnar fannst fyrir tilviljun þann 28. október við húsvegg bifreiðaverkstæðis á iðnaðarsvæði í Hamar.

Hælisleitandi frá Afganistan

Degi síðar birti lögregla mynd af konunni úr öryggismyndavél strætisvagns þar sem hún var með börnum sínum tveimur.

Hin látna var 27 ára hælisleitandi frá Afganistan og dvaldi á heimili fyrir hælisleitendur í bænum.

30. október var eiginmaður konunnar svo handtekinn vegna málsins og játaði hann að hafa banað konunni rúmri viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×