Erlent

Ný bók um David Cameron: Svín, dóp og rokk & ról

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
David Cameron forsætisráðhera Breta.
David Cameron forsætisráðhera Breta. Vísir/Getty
Breska dagblaðið Daily Mail birti í kvöld á vefsíðunni sinni búta úr væntanlegri bók sem nefnist Call Me Dave: The Unauthorised Biography.

Fjallar hún um David Cameron forsætisráðherra Breta og lífshlaup hans. Í bókinni er því haldið fram að Cameron hafi fiktað með eiturlyf á sínum yngri árum. Einnig er vitnað í heimildarmenn sem segist vita til þess að Cameron hafi stundað kynferðislegt athæfi með dauðu svíni. Höfundar bókarinnar er Michael Ashcroft lávarður einn af ríkustu mönnum Bretlands og var hann eitt sinn háttsettur innan Íhaldsflokksins.

Í bókinni segir að Cameron hafi reykt kannabis, bæði í Eton-skólanum sem og í Oxford. Hafi hann nærri því verið rekinn úr skóla fyrir að neyta kannabis-efna í Eton-skólanum en í Oxford-háskólanum hafi hann og félagar hans stundað það að „reykja gras og metast um ástarlíf sín“ ásamt því að hlusta á bresku rokksveitina Supertramp.

Sakaður um ósiðlegt athæfi í garð dauðs svíns

Einn heimildarmaður höfundar bókarinnar segist jafnframt hafa séð kókaín vera á boðstólnum í samkvæmi heima hjá Cameron og eiginkonu hans án þess þó að sést hafi til hjónanna verið að neyta kókaíns.

Í bókinni koma einnig fram ásakanir af hálfu ónafngreinds þingmanns á breska þinginu um að David Cameroni hafi tekið þátt í kynferðislegu athæfi með dauðu svíni. Er því haldið fram að Cameron hafi verið meðlimur í félagi sem sérhæfði sig í „undarlegum helgisiðum og óhóflegu kynlífi.“ Í einni athöfn félagsins á Cameron að hafa komið kynfærum sínum fyrir í munni dauðs svíns.

Höfundur bókarinnar, Michael Ashcroft lávarður, er fyrrum háttsettur meðlimur Íhaldsflokksins og þingmaður í Lávarðadeild breska þingsins. Gegndi Ashcroft embætti varaformanns flokksins á árunum 2005-2010 auk þess sem hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum flokksins ásamt því að vera einn af hans helstu bakhjörlum, fjárhagslega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×