Innlent

Ók á starfsmann við vegavinnu og nam ekki staðar

Bjarki Ármannsson skrifar
Áreksturinn átti sér stað á Hellisheiðinni á föstudag.
Áreksturinn átti sér stað á Hellisheiðinni á föstudag. Vísir/Valli
Ekið var á starfsmann við vegavinnu á Hellisheiðinni síðastliðinn föstudagsmorgun, milli níu og ellefu, og ók ökumaður af vettvangi slyssins. Lögregla leitar ökumannsins, sem var á hvítum jepplingi, sennilega af tegundinni Honda.

„Það er haft samband við lögreglu síðar um daginn, sjö um kvöldið,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson hjá lögreglunni á Suðurlandi. „Þá er upplýst um að þessi bíll hafi lent utan í þessum starfsmanni sem féll við og lenti utan í einhverri stiku þarna. Hann hélt bara áfram að vinna en þegar hann kom heim til sín fór hann að finna mikið til.“

Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum mannsins hlaut hann meðal annars þrjú brotin rifbein við áreksturinn.  

„Talið er að ökumaður jepplingsins hafi ekki farið að fyrirmælum þessa starfsmanns, sem var að reyna að vísa honum leið,“ segir Þorgrímur Óli. „Það væri gott ef ökumaðurinn myndi hafa samband við lögregluna hjá Suðurlandi.“

Að sögn Þorgríms Óla eru engar myndavélar á svæðinu sem hægt er að nýta í leitinni að ökumanninum. Lögreglan rannsakar atvikið sem slys en vill hafa upp á manninum svo að hinn slasaði fái bætur frá réttu tryggingafélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×