Tónleikarnir, gengu undir nafninu Hela Sverige skramlar, þar sem peningum var safnað til stuðnings flóttamönnum. Margir af vinsælustu tónlistarmönnum Svíþjóðar komu fram á tónleikunum og voru þeir sýndir í beinni útsendingu í sænska ríkissjónvarpinu.
Hugrekki flóttamanna að þakka
Rosling sagði það hugrekki þeirra flóttamanna sem hafa lagt leið sína til Evrópu að þakka að Svíar og aðrir Vesturlandabúar geri sér nú grein fyrir grimmd og alvarleika borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.
Hann lýsti því á myndrænan hátt hvert sýrlensku flóttamennirnir hafa haldið. Gagnrýndi hann stjórnvöld víðs vegar um heim fyrir þær fjárhæðir sem hafa verið lagðar til málefna flóttamanna. „Við þessar aðstæður er létt fyrir mennina með svörtu fánanana [ISIS] að fá fólk til liðs við sig,“ sagði Rosling.
Ekkert Evrópuríki nálægt þolmörkum
Rosling sagði að margir hafi bent á að það væru takmörk fyrir því hvað sé hægt að taka á móti mörgum flóttamönnum. Sagði hann það vera alveg rétt og benti á að Líbanon – land með fjórar, fimm milljónir íbúa sem hafi tekið á móti um milljón flóttamönnum – sé nálægt því að ná þeim mörkum. „Það er ekkert land í Evrópu sem er nálægt því að ná þessum mörkum,“ sagði Rosling.
Ræða Rosling vakti gríðarlega athygli og var hann hylltur á samfélagsmiðlum. Hann sagði nauðsynlegt að leggja til meira fé til málaflokksins strax. Annars yrði kostnaðurinn þeim mun meiri þegar fram í sækir.
Sjá má ræðu Rosling að neðan.