Erlent

Sérsveitir NATO aðstoða í Kunduz

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn í Kunduz.
Hermenn í Kunduz. Vísir/AFP
Sérsveitir nokkurra ríkja NATO hafa komið afgönskum hermönnum til aðstoðar í borginni Kunduz. Þar reynir herinn að ná borginni úr haldi Talibana, sem hertóku hana í leiftursókn á mánudaginn. NATO hætti bardagaaðgerðum í Afganistan fyrir níu mánuðum.

Samkvæmt AFP er um að ræða hermenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi, en ekki liggur fyrir hve margir þeir eru. Þar að auki er herinn studdur af loftárásum.

Baráttan um Kunduz.Vísir/GraphicNews
Flestir hermenn NATO ríkja yfirgáfu Afganistan í lok síðasta árs, eftir rúmlega 13 ára viðveru þar í landi. Hins vegar urðu um 13 þúsund hermenn eftir sem þjálfa afganska hermenn og fleira.

Tvær loftárásir voru gerðar við flugvöll borgarinnar í nótt, þegar Talibanar reyndu að ná tökum á honum. Leyniþjónusta Afganistan segir að yfirmaður Talibana í héraðinu og aðstoðarmaður hans hafi fallið í árásunum. Talibanar neita því hins vegar samkvæmt BBC.

Harðir bardagar eru nú sagðir eiga sér stað í Kunduz, en ekki liggur þó fyrir hvaða fylking stjórnar hvaða svæðum. Lögreglustjóri borgarinnar hefur sagt að hundruð Talibana liggi í valnum og varnarmálaráðuneytið segir herinn hafa höfuðstöðvar lögreglunnar og fangelsi, þar sem Talianar slepptu hundruð fanga.

BBC segir þó frá því að myndbönd sem Talibanar hafi birt sýni þá monta sig af skriðdrekum sem þeir hafi náð og annars konar brynvörðum bílum og tækjum. Þá er talið að Talibönum hafi borist liðsauki.

Ashraf Ghani forseti Afganistan segir að árangur hafi náðst, en að Talibanar skýli sér á bakvið borgara og því gangi þeim hægar en ella.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×