Innlent

Hefur enga trúa að flugvellir loki þrátt fyrir fjárskort

Jón Hákon Halldórsson og Sveinn Arnarsson skrifa
Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernir.
Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernir.
Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, hefur fulla trú á því að fjárframlög til innanlandsflugs aukist í meðförum fjárlagafrumvarpsins á Alþingi. Það hafi gerst á síðasta ári og muni gerast aftur.

Þetta kemur fram í viðtali við Hörð í Markaðnum í dag. Isavia hefur sent Innanríkisráðuneytinu minnisblað þess efnis að ef niðurskurður um 516,5 milljónir nái fram að ganga muni ástand Húsavíkurflugvallar fara fram yfir öryggismörk. „Eins og gefur að skilja er flugbrautum lokað fari ástand þeirra fram yfir öryggismörk,“ segir í minniblaðinu.

Búið er að festa kaup á nauðsynlegum ljósabúnaði fyrir Húsavíkurflugvöll, svo hægt sé að lenda og taka á loft í myrkri, en Isavia heldur því fram að fjármagn vanti í jarðvegsvinnu til að koma honum upp. Núverandi búnaður gangi úr sér næsta sumar.

Flugfélagið Ernir er eina flugfélagið sem flýgur áætlunarflug til Húsavíkur. Mikil ásókn er í flugið en farnar eru fjórtán ferðir á viku á milli Húsavíkur og Reykjavíkur og búist er við að þeim fjölgi í tuttugu á næsta ári.

Hörður segir allt tal Isavia um að loka flugvellinum vera aðgerð til að fá hagsmunaaðila í lið með sér að þrýsta á stjórnvöld um aukið framlag til fyrirtækisins. Hann er sannfærður um fjármálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið muni ekki þola að þessi samgönguþáttur yrði lagður niður. Í fyrra hafi 500 milljónir verið teknar af Keflavíkurflugvelli og lögð í innanlandsflugið.

„Af því að það er ekkert hægt að skera niður allt innanlandsflug og allar framkvæmdir og þjónustu og viðhald af innanlandsfluginu algjörlega niður. Það gengur ekkert upp,“ segir hann.

Og þetta virðist ætla að rætast. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir fjarstæðukennt að loka vellinum og hyggst halda fund með þingmönnum kjördæmisins í komandi kjördæmaviku til að ræða málin. Hann gefur sér sömuleiðis að settir verði fjármunir í að viðhalda flugvellinum.

Samkvæmt minnisblaði Isavia eru fleiri flugvellir í hættu á að loka vegna öryggismarka. Flugvöllurinn Stóri Kroppur í Borgarfirði, flugvöllurinn á Borgarfirði Eystri, Breiðdalsvík, Reykhólum og Skógarsandi eru allir taldir stefna að öryggismörkum á næsta ári. Þessir vellir eru notaðir í einka-, æfinga og kennsluflug. Loki þeir mun álag á Reykjavíkurflugvöll aukast, segir í minnisblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×