Viðskipti innlent

Telur fordæmisgildi Imon-dómsins ótvírætt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. vísir/gva
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að Hæstiréttur fallist í langflestum atriðum á viðhorf ákæruvaldsins í Imon-málinu svokallaða.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var þá dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik. Þá var Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, dæmd í 18 mánaða fangelsi og Steinþór Gunnarsson, sem var yfir verðbréfaviðskiptum bankans, var dæmdur í níu mánaða fangelsi.

„Þetta er allmikill dómur þar sem kveðið er mjög skýrt á um brot á ákvæði sem er dálítið alltumlykjandi hjá okkur þannig að fordæmisgildi dómsins er ótvírætt.“

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Sigurjón Þ. Árnason dóminn hins vegar óskiljanlegan, kolrangan og í engu samræmi við lög og reglur.

Þá hafði verjandi Sigurjóns, Sigurður G. Guðjónsson, meðal annars þetta að segja um dóminn í bloggfærslu á Pressunni í gærkvöldi:

„Ég á von á því að með þessum dómi hafi Hæstarétti tekist að sefa reiði almennings vegna bankahrunsins, eins og stefnt var að með setningu laga um embætti sérstaks saksóknara í desember árið 2008, og án efa er víða fagnað í kvöld.

Þegar dómur Hæstaréttar er lesinn og krufinn kemur berlega í ljós að litlu skipta fræðin, sem kennd eru í háskólum þessa lands um mannréttindi sakaðra manna og enn minna máli skipta reglur um sönnun í sakamálum, m.a. sú grundvallarregla að alla vafa í sakmálum skuli meta sakborningi í hag.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×