Erlent

Börn líklegri til að fá krabbamein

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Fukushima
Frá Fukushima Vísir/AFP
Börn sem búa nærri Fukushima kjarnorkuverinu í Japan, eru tuttugu til fimmtíu sinnum líklegri til að greinast með krabbamein í skjaldkirtli, en önnur börn. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á svæðinu. Stjórnvöld segja hins vegar að þessa fjölgun megi rekja til ítarlegri skoðana eftir slysið í kjarnorkuverinu árið 2011.

Flest þeirra 370 þúsund barna sem búa í kringum verið hafa farið reglulega í rannsóknir varðandi krabbamein. Nýjustu niðurstöðurnar sýna að 137 þeirra eru með krabbamein í skjaldkirtli og er það fjölgun um 25 á milli ára, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Áætlað er að eitt eða tvö af hverjum milljón börnum á ári fái krabbamein í skjaldkirtli.

Skömmu eftir slysið í Fukoshima tilkynntu stjórnvöld ítrekað að ómögulegt væri að fólk á svæðinu myndi fá sjúkdóma vegna geislavirkni. Þó voru framkvæmd árleg próf upp á öryggið. Samkvæmt AP eru þó skiptar skoðanir um nákvæmni rannsóknarinnar innan vísindasamfélagsins.

Bæði Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa rannsakað Fukushima og sagt að mengun þaðan ætti ekki að leiða til fjölgunar krabbameinstilfella.

Vísindamenn og læknar hafa lengi tengt krabbamein í skjaldkirtli barna við geislavirkni eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl árið 1986. Sé það meðhöndlað af læknum er sjaldgæft að það muni valda dauða fólks, en umrædd börn munu þó þurfa að taka lyf allt sitt líf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×