Innlent

Maðurinn sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Akranesi látinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Akranesi.
Frá Akranesi. Vísir/gva
Maðurinn sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Akranesi síðastliðinn föstudag lést síðdegis í dag. Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum sem er grunaður um að hafa ráðist á manninn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi sem var kölluð að húsi á Akranesi ásamt sjúkraflutningamönnum síðastliðinn föstudag eftir að tilkynnt hafði verið um meðvitundarlausan mann og líklega væri um hengingu að ræða. Á vettvangi var vitni sem kom að og hafði hafið endurlífgun. Sá meðvitundarlausi, maður á sextugsaldri, var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi þar sem hann var lagður inn á gjörgæslu og haldið sofandi í öndunarvél. Hann lést á síðdegis í dag. Ekki er hægt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.

Við komu lögreglu og sjúkraflutningamanna á staðinn var annar maður, á fertugsaldri, á vettvangi og var hann handtekinn skömmu síðar grunaður um tilraun til manndráps. Sá var síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. október í Héraðsdómi Vesturlands og var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar sem hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands.

Lögreglan á Vesturlandi rannsakar málið með stuðningi tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og segir rannsókn málsins miða vel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×