Innlent

Segir hendur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar bundnar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá íbúafundinum í gær.
Frá íbúafundinum í gær.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir hendur bæjarstjórnar bundnar varðandi samkomulag við Thorsil um byggingu kísilvers. Ræða hefði þurft málið á síðasta kjörtímabili en að íbúum standi til boða að koma með tillögur um breytt skipulag.

Þetta kom fram í máli hans á fámennum íbúafundi í Reykjanesbæ, þar sem verksmiðja Thorsil var rædd, út frá áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Í álitinu segir meðal annars að þrátt fyrir að talið sé að styrkur mengunarefna út frá verksmiðjunni muni falla innan viðmiðunarmarka, muni loftgæði í nágrenninu rýrna umtalsvert. Framundan er íbúakosning um verksmiðjuna, sem þó mun lítil áhrif hafa, því verksmiðjan rís, sama hvað íbúar segja.

„Um er að ræða fjárhagslegar skuldbindingar. Það er ekki sjálfgefið að bæjarfulltrúar geti framselt vald sitt til einstaklinga úti í þjóðfélaginu ef það snýst um fjármál. Þannig er nú svo komið með okkur sem störfum núna í meirihlutanum að það er búið að skuldbinda sveitarfélagið gríðarlega mikið. Samningar eru allir undirritaðir. Það er búið að lofa í samningum við Thorsil að breyta lóðunum. Þetta var allt frágengið áður en við komum að. Það þýðir það að okkar hendur eru mjög bundnar í þessu máli,” sagði Friðjón.

„Það hefur ekkert sveitarfélag verið í þessari fjárhagslegu stöðu sem Reykjanesbær er í núna, í Norður-Evrópu,” sagði hann jafnframt.

Friðjón sagðist harma það hversu illa sóttir íbúafundirnir væru. Þar gæfust íbúum kostur á að koma sinni skoðun á framfæri og leggja til breytingar um skipulag.

„Við erum búin að bjóða fólki upp á að breyta skipulagi, koma með hugmyndir, minnka iðnaðarsvæði, en því miður mætir fólk ekki á fundinn. Það er þar sem áhrifin eru mest.”


Tengdar fréttir

Íbúar funduðu um verksmiðju

Íbúar í Reykjanesbæ funduðu í gærkvöldi um verksmiðju Thorsil í Helguvík út frá áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×