Viðskipti innlent

Vill að dómarinn víki vegna nafnlausra skrifa, "læka“ á Facebook og Twitter-færslna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er einn af ákærðu í Marple-málinu.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er einn af ákærðu í Marple-málinu. Vísir/GVA
Hreiðar Már Sigurðsson, einn sakborninga í Marple-málinu og fyrrverandi forstjóri Kaupþings, telur Ásgeir Brynjar Torfason, sérfróðan meðdómanda í málinu, vera höfund nafnlausrar bloggfærslu á vefsvæði Egils Helgasonar sem birtist þann 10. desember 2009.

Hreiðar hefur farið fram á að Ásgeir víki sæti í málinu en aðalmeðferð þess er lokið og á að kveða upp dóm á föstudaginn. Málflutningur um kröfuna verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Titill færslunnar sem vísað er til í kröfu Hreiðars er „Orðspor Íslendinga“ og er sögð vera eftir lesanda í Skandinavíu. Hreiðar telur sig hins vegar vita að greinin sé eftir Ásgeir Brynjar og fer fram á að hann víki sæti sem dómari í Marple-málinu meðal annars vegna þessara skrifa en í færslunni segir:

„Útlendingar eru ekki að leika Íslendinga grátt, heldur var því þver öfugt farið, íslenskir bankar sviku útlendingana.  Hrunið var ekki útlendingum að kenna – það er mikilvægt að horfast heiðarlega í augu við þá staðreynd.“

Telur að Ásgeir hafi kallað stjórnendur Kaupþings „óreiðumenn“

Að mati Hreiðars er ekki hægt að skilja þessi skrif, sem hann telur vera Ásgeirs, öðruvísi en svo að dómarinn telji forstjórann fyrrverandi hafa leikið Íslendinga grátt og svikið útlendinga. Hrunið hafi meðal annars verið Hreiðari að kenna. Hann vill því að Símon Sigvaldason, dómsformaður, beri skrifin undir Ásgeir og fái svör við því hvort hann sé höfundur þeirra.

Þá vísar Hreiðar jafnframt í önnur skrif á vef Egils Helgasonar, „Aftur að orðspori Íslendinga“, en þar kemur fram að höfundurinn sé Ásgeir Brynjar Torfason. Í þeim segir:

„Alveg eins og skuldir vegna óábyrgra útlána seðlabankans til óreiðumannanna í gjaldþrota bönkunum.“

Þarna telur Hreiðar að verið sé að vísa til Kaupþings þar sem hann var eini bankinn sem fékk lán frá Seðlabankanum í aðdraganda hrunsins, nánar tiltekið 500 milljóna evra þann 6. október 2008. Stjórnendur Kaupþings séu því í skrifum Ásgeirs kallaðir „óreiðumenn“.

Ásgeir Brynjar Torfason.
„Lækaði“ grein um Seðlabankalánið á Facebook

Þá er jafnframt farið fram á að Ásgeir víki sæti þar sem hann er stjórnarmaður í samtökunum Gagnsæi sem berjast gegn spillingu, en meðdómandinn hefur meðal annars skrifað grein um baráttuna gegn spilltu viðskiptaumhverfi.

Að auki er í kröfu Hreiðars vísað í skrif meðdómandans á Twitter sem sakborningurinn telur sýna að Ásgeir hafi mikinn áhuga á þeim dómsmálum sem höfðuð hafa verið gegn Hreiðari og öðrum fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings. Einnig er vísað í „læk“ sem Ásgeir Brynjar setti á Facebook við grein Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild HÍ.

Greinin fjallar um neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings og ber heitið „Lánað úr litlum forða“. Í henni segir:

„Þessi lánveiting var um margt afar skrýtin. Í fyrsta lagi mátti öllum vera ljóst á þessum tíma að Kaupþing var á leið í þrot, þótt ekki hafi legið fyrir þá hversu slæmt eignasafn bankans var í raun.”

Hreiðar telur að með því að setja „læk“ við grein Gylfa hafi Ásgeir lýst sig samþykkan þessari staðhæfingu í greininni auk þess sem vísað er í vídjóblogg Ásgeirs og Teits Atlasonar þar sem hann talar um lán Seðlabankans:

„Íslendingar voru að reyna að bjarga bönkunum alveg fram í október 2008. Seðlabankinn var að lána pening, jafnvel til Kaupþings, þarna fyrir rétt fyrir hrun. Það voru hins vegar erlendir seðlabankar og fjármálamarkaðurinn sem veittu Íslendingum ekki meira lán af því að það var augljóst að þeir væru að fara með þetta í tóma vitleysu.“

Tekist á um „læk“ í lekamálinu

Í kröfu sinni um að meðdómandinn víki tiltekur Hreiðar fleiri dæmi sem hann segir gefa tilefni til þess að hann sem sakborningur í málinu megi efast um óhlutdrægni dómarans. Meðal annars dregur hann fram annað „læk“ á Facebook, deilingu á bloggfærslu og ummæli Ásgeirs í Háskóla Íslands um að íslensku bönkunum hafi verið stjórnað af glæpamönnum, en Hreiðar segist hafa heimildir fyrir því að Ásgeir hafi látið slík ummæli falla.

„Læk“ á Facebook hefur einu sinni áður komið til kasta dómstóla en það var í lekamálinu svokallaða. Þá fór Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, fram á að sakamáli gegn sér yrði vísað frá dómi.

Byggði krafan meðal annars á því að saksóknari í málinu, Helgi Magnús Gunnarsson, væri ekki óhlutdrægur þar sem hann hefði „lækað“ Facebook-færslu sem tengdist lekamálinu. Frávísunarkröfunni var hins vegar hafnað og þar með því að hlutdrægni fælist í því að setja „læk“ á Facebook.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×