Handbolti

Haukar unnu þriðja leikinn í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Giedrius Morkunas var öflugur í markinu í kvöld að vana.
Giedrius Morkunas var öflugur í markinu í kvöld að vana. Vísir/
Haukar unnu tveggja marka sigur á nýliðum Gróttu, 24-22, í 6. umferð Olís-deildar karla í kvöld en eftir að hafa lent sjö mörkum undir um tíma í seinni hálfleik tókst leikmönnum Gróttu að vinna sig aftur inn í leikinn.

Leikmenn Gróttu höfðu fengið skell í síðustu tveimur leikjum gegn ÍBV og Val en þeim tókst að halda í við Haukaliðið í fyrri hálfleik og var staðan 11-12 í hálfleik, Haukum í vil.

Gestirnir úr Hafnafirði virtust ætla að gera út um leikinn tíu mínútum fyrir leikslok þegar Haukar leiddu með sjö mörkum og fengu víti en markvarsla Lárusar Helga Ólafssonar virtist vekja leikmenn Gróttu til lífsins.

Skyndilega tókst Gróttu að saxa á forskot Hauka og fór munurinn niður í tvö mörk þegar ein mínúta var til leiksloka en mark Heimis Óla Heimissonar gerði út um leikinn á lokamínútunni.

Aron Dagur Pálsson var atkvæðamestur í liði Gróttu með 7 mörk en það tók liðið 18 mínútur að skora annað mark sitt í seinni hálfleik og reyndist það liðinu of mikið að ætla að vinna upp sjö marka forskot.

Í liði Hauka var það Janus Daði Smárason sem var markahæstur með átta mörk, þar af tvö af vítalínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×