Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi varaformaður flokksins, lýsti því yfir í viðtali við Stöð 2 fyrir mánuði að hún hygðist að óbreyttu gefa kost á sér til forystu í flokknum. „Ég held ég hafi mjög góðan stuðning á meðal sjálfstæðismanna, mér hefur alltaf gengið vel í þeim kosningum sem ég hef farið í hjá Sjálfstæðisfslokknum. En svo er þetta bara annað mál og mín staða í stjórnmálum hefur auðvitað breyst eilítið, það liggur alveg fyrir,“ sagði Hanna Birna þá.
Töluverður þrýstingur hefur verið á Ólöfu, sem tók við innanríkisráðuneytinu af Hönnu Birnu í desember, að bjóða sig fram til formanns. Allt þar til á síðustu dögum hefur sú hvatning farið fram utan kastljóss fjölmiðlanna. En undanfarna daga hefur þrýstingurinn aukist með því að einstaka félög innan Sjálfstæðisflokksins hafa skorað á hana í framboð.
Sjálfstæðisfélagið í Langholtshverfi reið á vaðið með ályktun fyrr í mánuðinum.
Seint í fyrrakvöld bættust svo sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi við og skoruðu á Ólöfu að gefa kost á sér. Á mbl.is birtist svo áskorun frá tíu sjálfstæðismönnum á landinu sem allir gegna, eða hafa gegnt, forystuhlutverki í innra starfi flokksins. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að fleiri aðilar kunni að birta áskoranir opinberlega. Ekki náðist tal af Óttarri Guðlaugssyni, formanni Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Hanna Birna ekki berjast fyrir endurkjöri, fari svo að Ólöf gefi kost á sér í embættið. Bjarni Benediktsson mun áfram gefa kost á sér sem formaður flokksins og Guðlaugur Þór Þórðarson mun gefa kost á sér sem ritari.
