Skoðun

Hið meinta samviskufrelsi

Sigfinnur Þorleifsson og Vigfús Bjarni Albertsson skrifar
Það er skilningur okkar og sannfæring byggð á upplýstri samvisku, að kirkjan geti aldrei meinað tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar uppfylli þeir lögformleg skilyrði þess að ganga í hjúskap. Því miður er það svo að í röðum presta Þjóðkirkjunnar er fámennur hópur sem telur að með svokölluðu samviskufrelsi hafi þeir vald sem er meira og stærra en kærleikur Krists og geti þannig neitað fólki um þjónustu.

Sami fámenni hópur ætlar líka að ógilda þá stöðu að prestar sem eru í þjónustu Þjóðkirkjunnar eru embættismenn og samkvæmt lögum geta þeir því ekki meinað fólki um þjónustu. Annað gilti væru prestar ekki embættismenn heldur starfsmenn hóps sem hefði sameinast um sinn skilning á lífi og tilveru. Það er kannski löngun þessara svokölluðu samviskufrjálsu að búa til slíkan sértrúarhóp? Sá hópur yrði aldrei Þjóðkirkja heldur afar fámennur sértrúarhópur þar sem sumir væru blessaðir og aðrir væru það ekki því þeir uppfylla ekki skilyrðin um kærleikann.

Það er dapurlegt ef nú á að fara að búa til eitthvert sérfrelsi til að skilyrða kærleiksboðskap Krists. Og fordæma og hafna fólki á grundvelli svokallaðs samviskufrelsis. Leiðtogi okkar Kristur þurfti að kljást við prestastétt síns tíma. Samviskufrelsi þeirra réðst á hann sem persónu, á boðskap hans um kærleika og jafna stöðu alls fólks. Samviskufrelsi þeirra hafði það að markmiði að einangra fólk, fá fólk til að efast um sjálft sig og stöðu sína. Þeir sögðust allir meina vel, þrælbundnir af frjálsri samvisku sinni.

Orðið embætti er dregið af orðinu ambátt sem þýðir þjónusta við alla. Það er dapurlegt ef Þjóðkirkjan leyfir starfsfólki sínu að blessa suma en aðra ekki. Það er mikilvægt að hún tali afdráttarlaust og það verði lokaorðin í þessu máli: Prestar hafa ekki leyfi til að meina fólki um hjúskap uppfylli það lögformleg skilyrði. Það væri dapurlegt ef það færi þannig að prestar misstu vígsluvald sitt. Enn og aftur er það fámennur hópur sem ætlar að ógna samfylgd þjóðarinnar og kirkjunnar. Þjóðin er löngu búin að gera upp hug sinn í þessu máli. Samviskufrelsi þjóðarinnar hefur fyrir löngu afgreitt fordóma gegn kynhneigð fólks sem úrelta og meiðandi. Blessunin á að vera fyrir alla.




Skoðun

Sjá meira


×