Skoðun

Opið bréf til félags- og húsnæðismálaráðherra

Ellen Calmon skrifar

Við hjá Öryrkjabandalagi Íslands höfum ítrekað lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu einstaklinga sem búa við skertar greiðslur almannatrygginga vegna fyrri búsetu erlendis. Þessir einstaklingar fá aðeins hlutfall af lífeyri almannatrygginga og oftast engar greiðslur erlendis frá. Því þurfa þeir að reiða sig á heildar­tekjur sem eru langt undir öllum tekjuviðmiðum, þar með talið framfærsluviðmiðum skv. lögum um félagslega aðstoð. Á árinu 2012 voru 33 örorkulífeyrisþegar með heildartekjur undir 80.000 kr.



Við teljum að á þessu vandamáli þurfi að taka með heildstæðum hætti, en hér er lögð til lausn á brýnasta vanda þessa hóps. Um er að ræða aðgerð sem hægt er að framkvæma strax þrátt fyrir að enn sé unnið að endurskoðun almannatrygginga. Við teljum þörf á tafarlausu inngripi stjórnvalda.

Ætlað að tryggja skilgreinda lágmarksframfærsluLög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafa meðal annars það hlutverk að tryggja að heildartekjur lífeyrisþega séu ekki undir ákveðnum skilgreindum framfærsluviðmiðum, en fyrir árið 2015 eru þessi viðmið kr. 193.962 án heimilisuppbótar og kr. 225.070 með heimilisuppbót. Sérstök framfærsluuppbót er greidd til lífeyrisþega með heildartekjur undir ofangreindum framfærsluviðmiðum til þess að heildartekjur þeirra nái þessum viðmiðum.



Í svari þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um lágmarksframfærslu segir að með lögfestingu ákvæðis um sérstaka uppbót til framfærslu væri öllum lífeyrisþegum tryggð samkvæmt lögum ákveðin lágmarksfjárhæð til framfærslu á mánuði. Skv. frétt á heimasíðu TR, dags. 13.9.2012, var það gert sökum þess að það var „mat manna að bótaflokkar almannatryggingakerfisins nægðu ekki til framfærslu lífeyrisþega?…“. Framkvæmd ákvæðisins hefur þó verið með þeim hætti að sérstök uppbót til framfærslu lífeyrisþega hefur verið skert á grundvelli fyrri búsetu erlendis með sama hætti og aðrir bótaflokkar, þvert gegn tilgangi þess. Búsetuskerðing sérstakrar framfærsluuppbótar byggir einungis á reglugerðarákvæði.

Peningarnir eru tilVið samanburð á fjárlögum ársins 2014, þar sem áætlaðar voru 2.687,6 milljónir króna fyrir liðinn „sérstök uppbót lífeyrisþega“, og svo útgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna liðarins, má sjá að TR nýtti einungis 2.196 milljónir króna. Því var fjárlagaliðurinn ekki að fullu nýttur þrátt fyrir augljósa þörf þeirra sem málið varðar. Eftir stóðu 491,6 milljónir sem hefði klárlega mátt nýta í þeirra þágu.

Leið til lausnarÞað er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öllum viðunandi lífskjör. Leiðin til lausnar er í sjálfu sér mjög einföld. Hún felur í sér að lögunum verði aftur beitt í samræmi við tilgang þeirra og að umrætt reglugerðarákvæði (3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009) verði fellt úr gildi. Umrædd lausn leysir vanda einstaklinga sem búa við afar bág kjör vegna lágra tekna. Ráðherra er hér með hvattur til þess að taka af skarið í þessu máli og bæta úr þessu fyrir aðra umræðu fjárlaga 2016.



Nú stendur ÖBÍ fyrir undirskriftasöfnun þar sem allir 18 ára og eldri eru hvattir til að skora á stjórnvöld að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á haustþingi 2015. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Tryggjum öllum jafnan rétt og skrifum undir á www.obi.is.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×